Færslur í desember 2006

« nóvember 2006 | Forsíða | janúar 2007 »

Föstudagur 1. desember 2006

Merkileg túlkun

Ég var að skoða sundurliðun á nýrri skoðanakönnun hjá RÚV um fylgi flokkanna. Fyrirsögnin fjallar um að Árni Johnsen sé að sópa að sér fylgi. Þegar könnunin er skoðuð þá eru aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi að sópa miklu meira að sér þrátt fyrir að RÚV telji það ekki fyrirsögn, nei það er annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins sem skal vera aðalnúmerið. Hvað sem tautar og raular. Þessi tvö prósent úr 39% í 41% eru að mati fréttamannsins aðalmálið en ekki t.d. aukning í Norðvesturkjördæmi hjá Frjálslynda flokknum úr 6% í 14% sem er ríflega tvöföldun. Engu sópar Guðjón að sér í huga þessa fréttamanns. Nánast þreföldun Frjálslynda flokksins í Suðvestur kjördæmi er heldur ekkert efni í fyrirsögn og ekkert verið að "sópa" neitt að neinum. Auking Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs undir stjórn formanns síns Steingríms J. er heldur ekki nein frétt enda "bara" 4%.

Continue reading "Merkileg túlkun" »

kl. |Pólitík || Álit (3)

Mánudagur 4. desember 2006

Jöfnuður í ríkisstjórn

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ á laugardag hélt formaður okkar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kraftmikla ræðu og sagði m.a. "...ef þeir vilja auka hlut kvenna í ríkisstjórn þá liggur leiðin í gegnum Samfylkinguna því ég mun að sjálfsögðu gæta þess í næstu ríkisstjórn að jafnræði verði milli kvenna og karla í okkar ráðherrahópi. Við munum ekki verða eftirbátar jafnaðarmanna í öðrum löndum s.s. Persons í Svíþjóð, Zabatero á Spáni og Stoltenbergs í Noregi."

Þessi skýra afstaða formannsins er jákvætt lóð á vogarskálar jafnréttismála því hingað til höfum við ekki séð að stjórnmálaflokkar gæti þess að jafnt hlutfall kynja sé í ráðherrahópi ríkisstjórnar. Það er mikilvægt að bestu konurnar og bestu karlarnir skipti með sér verkum í nýrri ríkisstjórn sem mun taka við í vor. Þá mun sem betur fer margt breytast og við förum að sjá meiri jöfnuð á Íslandi milli fólks með fjölbreyttan bakgrunn og misjafna bagga að bera.

kl. |Pólitík ||

Fimmtudagur 7. desember 2006

Við borgum fyrir ekki neitt

Mér var bent á eftirfarandi grein í dag sem kallast "Gera ekki familían" og fékk dálítinn hroll. Háar greiðslur hafa farið úr ríkissjóði í skaðabótamál fyrir að standa ekki við útboð vegna Héðinsfjarðarganga og síðan borgum við heilmikið svo Framsókn geti haft ráðuneytisstjóra úr eigin ranni. Að vísu góðan samnemanda minn frá Bifröst en ekki gátu þeir staðið rétt að málum og þjóðin borgar brúsann. Er það ekki að verða dálítið dýrt spaug að hafa svona flumbrugang í ríkisstjórn?

kl. |Pólitík || Álit (3)

Miðvikudagur 13. desember 2006

Frábært kvöld

Fór suður í gærkvöldi til að hitta Gurrý vinkonu frá Jórdaníu sem er frábær vinkona og ljósmyndari. Hún var búin að sammælast við Röggu sem er flottur ljósmyndari að gera það gott á DPC. Nú Ragga var búin að tala við Valdísi vinkonu sína sem líka er með mikinn ljósmyndaáhuga og við fórum allar í næturferð græjaðar ljósmyndavélum. Allt of sjaldan er maður í stelpuhóp í myndatökum svo þetta var frábært. Ég náði frábærum norðurljósamyndum í fyrsta skipti, lærði að ég þarf enn og aftur að huga að fleiri linsum og skemmti mér svo konunglega. Þar sem við paufuðumst um í Krísuvík í náttkyrrðinni með norðurljósin dansandi yfir þá hríslaðist hamingjan um mann. Svona á lífið að vera, frábær félagsskapur, góð myndavél, fögur náttúra - þá er lífið bara fullkomið.

kl. |Ljósmyndun || Álit (3)

Föstudagur 15. desember 2006

Afturfótadagur

Þetta var einn af þessum dögum sem ekki gekk eins og ég áætlaði. Ég vaknaði þó á réttum tíma til að komast út á flugvöll uppúr sjö. Í vinnuna að ná í pappíra en þá varð síminn eftir heima, svo það var heim aftur og komast út á flugvöll. Fínt flug - ég svaf - hjá Kristjáni Júl. Mætti í vinnuna og á fund í útvarpsráði - allt enn svona tiltölulega gæfuríkt, en mundi þá ekki flugtímann minn heim um eittleytið og missti af flugvélinni. Þar sem ég horfði mædd á afgreiðslustúlkuna á Reykjavíkurflugvelli og spurði - hvað geri ég þá? Áttu annað flug? Já en flugmiðinn þinn gildir ekki lengur nema þú borgir. Þá borga ég svaraði ég... en ég á bara flug hálf sjö, tja þá fer ég bara hálf sjö svaraði ég. Hún horfði hissa á mig "ertu ekkert reið"? Það er ekkert gaman að vera reiður, en maður er nú pínuponsu pirraður út í sjálfan sig;-) Ekkert mál bara aftur í vinnuna í Faxafenið enda skiptir engu hvoru megin ég vinn ég átti bara fund fyrir norðan sem ég flutti. Lét laga gleraugun mín upp í Mjódd - sé núna afspyrnu vel - og keypti jólagjafir fyrir starfsfólkið mitt. Út á flugvöll aftur, fínt flug - ég svaf - hjá Steingrími J. Akureyri skartaði sínu fegursta, frost og trén með fallegum jólasnjó, spurning að fara út að mynda ég er búin að sofa svo vel í dag í flugvélum;-)

kl. |Tilveran || Álit (0)

Föstudagur 15. desember 2006

Jólaálfurinn

Er ég ekki flottur jólaálfur?

kl. |Tilveran || Álit (1)

Sunnudagur 17. desember 2006

Dómstóll götunnar

Ég horfði á hluta þáttarins Kompás ásamt fréttum Stöðvar 2 af forstöðumanni Byrgisins og velti fyrir mér hvaða þýðingu það hefur fyrir hlutaðeigandi þegar fréttir verða af þessu tagi. Varast ber að dæma nokkurn mann enda er það hlutverk dómstóla og ætla ég mér ekki að hafa nokkur tök á því að vita hvað er rétt eða rangt. Dómstóll götunnar hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Hinsvegar velti ég fyrir mér í hvaða stöðu sjúklingarnir í Byrginu eru í eftir þennan þátt. Hann hlýtur að vera þeim talsvert áfall og valda umróti sem þeir síst þurfa á að halda. Hafi þurft að rannsaka staðinn þá þarf að bera hag þessa fólks fyrir brjósti og finna leiðir til þess að aðrir hugi að því á meðan að mál af þessu tagi stendur yfir. Á sama tíma er nauðsynlegt að því ljúki mjög hratt þar sem líklegt má telja að styrkir hverfi mjög hratt meðan svo alvarlegum ásökunum er varpað að forstöðumanni. Það skjól sem Byrgið hefur verið æði mörgum mun á næstu dögum og vikum vera ansi næðingssamt. Því tel ég afar mikilvægt að yfirvöld sýni ábyrgð og hugi að þessu fólki sem allra fyrst og veiti Byrginu forstöðu þar til þessu er lokið. Múgæsingur hjálpar engum en réttlæti verður að ná fram að ganga hverjum sem það ber.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Mánudagur 18. desember 2006

Dimmir tónar

Nú er jóladiskurinn tilbúinn - seint eins og venjulega. Kannski maður fari að kalla hann áramótadisk;-) Ég hef verið að æfa dimmri tónana mína undanfarið og tók í gærkvöldi upp aftur lagið Dimmar nætur sem ég hef mætur á og langaði að breyta dálítið þar sem ég er farin að æfa dimmri rödd en áður. Það hentar dimmu lagi. Jón Víkingsson hjálpaði mér með nýja útsetningu sem ég á eftir að melta dálítið en er nokkuð sátt við. Það er við ljóð sem Gísli minn samdi og beinir sjónunum að því að þrátt fyrir hversu mikilvæg við teljum okkur þá erum við lítið meira en rykkorn sögunnar:

Þegar drottna dimmar nætur
deyja gamlir menn
og ungir drengir

Þeir fara ekki framar á fætur
fallnir frá

Tímans ryk
á ævi þeirra fellur

enginn hvellur

þeir voru aldrei til

kl. |Tilveran || Álit (5)

Föstudagur 22. desember 2006

Jólastússið

Ég er nú ekki mikill jólastússari en engu að síður eru jú nokkur handverkin við jólin. Búin að gefa starfsfólkinu jólagjafir sem ég vona að þau séu ánægð með. Búin að kaupa allar og pakka öllum nema tveimur. Jóladiskurinn kominn út og lítur ágætlega út, við köllum hann "Litbrigði" þetta árið - ég er ánægð með það nafn. Svo dútla ég við að senda hann út, hann er jú jólakortið okkar sem og áramótakortið. Ég stressa mig ekkert á því að koma honum í póstinn fyrir jólinn hann mjatlast bara út eftir því sem dagarnir líða og ég renni mér í þetta. Eins og fyrr geta þeir sem vilja eignast diskinn bara sett inn athugasemd hér og fengið hann ekki málið enda fyrst og fremst gert til skemmtunar og Johnny King reyndist jafn vel núna og fyrri árin, alltaf jafn hjálplegur. Konfektið komið í hús og ég búin að steingleyma danska kúrnum en hann rifjast hratt upp í byrjun janúar;-)

kl. |Tilveran || Álit (0)

Sunnudagur 24. desember 2006

Gleðileg jól

Þá eru jólin að koma og ég er enn að skrifa jólakortin, sem er reyndar frekar algengt enda stressa ég mig sjaldan á því að koma þeim til skila en fyrir Þrettándann verða þau að vera komin því þá er hátíðin búin;-) Það er fínt að vera komin á mitt æviskeið, ekkert barnastress, reyndar bara farið til barnanna að borða, bara búa til jólaísinn og þá er ég fín. Gísli er byrjaður að elda kalkúninn enda leggur hann til í eldamennskunni.

Continue reading "Gleðileg jól" »

kl. |Tilveran || Álit (1)

Þriðjudagur 26. desember 2006

Óskiljanlegt flugumferðarklúður

Ég skil sannast sagna ekki upp né niður í þessum deilum við flugumferðarstjóra. Ef ég skil málin rétt var samið um mitt síðasta árs við þá til ársins 2008. Nú ári síðar er búið til opinbert hlutafélag sem ráðherra finnst snjallara en að reka þetta eins og verið hefur og vill á sama tíma losna undan lífeyrissamningum við flugumferðarstjóra. Í fyrstu hreytti samgönguráðherra ónotum í þá þegar þeir ekki vildu sækja um vinnu hjá nýja opinbera hlutafélaginu hans Flugstoðum með sama stjórnanda og áður. Sagðist bara geta fengið útlendinga í vinnu. Núna er málið hinsvegar í hans huga það að flugumferðarstjórar ætli að hrekja starfsemina úr landi. Ekkert vandamál hefði verið með flugumferðarstjóra ef sami rekstur hefði verið til ársins 2008. Samningarnir við þá giltu þangað til þá en það var samgönguráðherra sem sagði þeim upp ekki flugumferðarstjórar. Ef þeir vilja ekki ráða sig til Flugstoða heldur fara fremur á biðlaun ráða þeir því, en er þetta mál ekki frekar klúðurslegt frá upphafi til enda? Hvers vegna er betra að hafa rekstur í opinberu hlutafélagi heldur en opinberum rekstri? Ég þarf að reyna að skilja það svo góðar ábendingar í þeim efnum eru vel þegnar.

kl. |Pólitík ||

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.