Fjarðabyggð og Djúpivogur

« september 2006 | Forsíða | nóvember 2006 »
Mánudagur 2. október 2006
Föstudagur 6. október 2006
Laugardagur 7. október 2006
Mánudagur 9. október 2006
Þriðjudagur 10. október 2006
Miðvikudagur 11. október 2006
Laugardagur 14. október 2006
Sunnudagur 15. október 2006
Mér til mikillar gleði er Dagný Reykjalín búin að hanna nýtt útlit á mig. Hún hefur séð um útlitshönnunina mína í nokkur ár og ég er alltaf jafnánægð með hana. Helga Kvam tók myndina af mér. Er þetta ekki bara fínt?
Sunnudagur 15. október 2006
Í dag fórum við Gísli minn fyrst út í Hrísey þar sem ég hitti gott fólk í kaffi og við ræddum pólitík. Það var gaman að sigla með ferjunni í smá úfnum sjó. Ég náði að mynda talsvert með nýju linsunni minni sem ég hlakka itl að fást við eftir prófkjör. Síðan fórum við að Húsabakka í Svarfaðardal þar sem var kynning á félögum og félagsstarfsemi í bæjarfélaginu en þar er greinilega hægt að fást við gríðarlega margt. Þaðan fórum við síðan til Ólafsfjarðar en Gísli er einmitt þaðan. Skemmtilegur dagur enda brúðkaupsafmælið okkar;-)
Mánudagur 16. október 2006
Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig í Samfylkinguna til að taka þátt í prófkjörinu í Norðausturkjördæmi. Menn geta skráð sig hér með nokkuð einföldum hætti og tekið þátt. Ég hvet alla sem vilja hafa áhrif í flokknum að skrá sig endilega sem fyrst, skráningu lýkur annaðkvöld, þriðjudagskvöld kl. 22:00. Hér er innskráningarsíðan á vefnum.
Fimmtudagur 19. október 2006
Nú á laugardag er íbúaþing í Dalvíkurbyggð þar sem íbúar ætla að koma saman og skiptast á skoðunum um hvernig þau vilja sjá samfélagið sitt til framtíðar. Íbúaþing sem þetta eru til mikillar fyrirmyndar og virkja íbúa til þess að taka þátt í því að móta samfélagið sem þannig er líklegra til þess að þjóna íbúum sínum betur.
Ég man eftir íbúaþinginu hér á Akureyri þar var gaman að setjast niður með öðrum sem maður hitti ekki daglega eða þekkti ekki neitt og vera sameiginlega að velta fyrir sér bænum sínum. Ég held að það hljóti að hafa áhrif á okkur og gera okkur þar með virkari og eftirtektarsamari um hvað má fara betur og ekki síst hvað er gott þannig að við viljum varðveita það. Ég hlakka mjög til að sjá tillögur og hugmyndir frá íbúaþinginu í Dalvíkurbyggð enda ægifagurt sveitarfélag sem býður upp á marga góða kosti.
Föstudagur 20. október 2006
Það voru gleðitíðindi hversu mikið fjölgaði í Samfylkingunni í yfirstandandi prófkjöri. Greinilegt er að margir vilja ganga til liðs við flokkinn og velja framvarðarsveit flokksins í komandi kosningum. Þetta fyllir mann bjartsýni um gengi í komandi kosningum ef okkur tekst að velja öfluga framvarðarsveit sem verður dugleg í kosningunum í vor. Reyndar er ég viss um að svo verður því það er öflugt fólk í framboði sem mun auðvitað skipa efstu sætin í vor;-)
Mánudagur 23. október 2006
Í dag eru kjörseðlar í prófkjörinu okkar í Norðausturkjördæmi bornir í hús. Þá skiptir miklu máli að koma þeim í gagnið með því að merkja við og setja þá í póst. Ég vil hvetja alla að nýta kosningaréttinn og enn betra ef þeir vilja kjósa mig í 2. sæti listans. Við Samfylkingarmenn erum nú eini flokkurinn sem á ekki konu sem þingmann í Norðausturkjördæmi og eina kjördæmið þar sem Samfylkingin á ekki konu sem þingmann. Þessu þurfum við auðvitað að breyta;-) Bjóðist endilega til að grípa með ykkur umslög grannanna í pósthúsið og ef einhver er í vandræðum með að koma atkvæðunum á sinn stað endilega hafið samband í síma 896-3357 og stuðningsmenn mínir munu með ánægju skutlast í póstinn fyrir ykkur.
Þriðjudagur 24. október 2006
Í stjórnmálum er oft talað um konur, skort á þeim, framgang, hvort þær hafi önnur viðhorf og margt fleira. Hér í Norðausturkjördæmi er staðan sú að Samfylkingin einn flokka hefur ekki konu sem þingmann en það finnst mér frekar bagalegt því ég tel að bæði kynin þurfi að eiga fulltrúa og vinna saman fyrir flokkinn í kjördæminu. Sem betur fer erum við eina kjördæmið þar sem Samfylkingin er í þessari stöðu enda gríðarlega stór og góður hópur kvenna sem er á þingi fyrir flokkinn. Í þessu ljósi fannst mér ekki koma annað til greina en að bjóða mig fram í annað sætið í yfirstandandi kjördæmi. Svo er bara að sjá hvort ég hef dug til að ná því þar sem mikið mannval er í prófkjörinu og margt sem þarf að huga að.
Föstudagur 27. október 2006
Í morgun var ég mætt út á flugvöll um sjöleytið því vinnudagurinn var fyrir sunnan. Loftleiðir, MH, Þekking og síðast sýningin Handverk og hönnun. Fyrst fór ég á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum sem byrjaði nánast á sömu mínútunni og ég gekk í salinn. "Takk fyrir Reykjavíkurflugvöll" hugsaði ég í þúsundasta sinn. Án hans hefði ég ekki getað sofið heima í nótt. Ráðstefnan sem var um MindManager og JCVGantt var frábær og eiga Verkefnalausnir heiður skilinn fyrir hana. Ég er búin að sjá marga fleiri möguleika til að nota þessi tól og nú síðast datt mér í hug að það væri frábært í pólitík, þarf að prófa það;-)
Laugardagur 28. október 2006
Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég fékk póst um að ráðist hefði verið á ungan homma í Færeyjum - bara vegna þess að hann er hommi og að mannréttindi samkynhneigrða séu ekki tryggð í landinu og að "aðstoðarlögreglustjórinn í Þórshöfn lýsti því yfir á dögunum að lögreglan hefði ekki lagaheimild til að vernda og verja samkynhneigða þegna landsins ef að þeim væri sótt með hótunum og ofsóknum." (Samtökin 78). Til að glöggva mig á málinu fór ég á vefsíðu Dimmalætting í Færeyjum og skoðaði vefsíðu Samtakanna 78 og viti menn þetta var ekki grín, ekki spam, ekki bull, heldur nöturlegur sannleikur. Ég vil því hvetja alla til að rita nöfn sín undir yfirlýsinguna "Act Aganist Homophobia". Þetta er gersamlega ólíðandi, við munum þegar Ísland hrakti af sér gott fólk vegna kynhneigðar - slíkt á hvergi að líðast.
Sunnudagur 29. október 2006
Þegar ég renndi yfir pistil Björns Bjarnasonar um prófkjör Sjálfstæðismanna þá rifjaði ég upp hversu oft nemendur þakka sér þegar þeir fá góðar einkunnir en kenna kennaranum um þegar þær eru slæmar. Viðbrögðin Björns komu mér á óvart, hann er mikill baráttujaxl, þaulvanur í pólitík og röggsamur ráðherra. Þó ég sé ekki sammála honum um hin ýmsustu viðhorf þá hvarflar ekki að mér annað en segja að hann er mjög vinnusamur ráðherra, duglegur og samviskusamur. Hann hefur fengið á sig ýmsan brotsjóinn í pólitík en yfirleitt staðið hnarreistur og manni finnst oft að ekkert bíti á þennan mann. En nú kvartar hann undan bréfi frá gömlum ráðherra Alþýðuflokksins, auglýsingum samherja sinna, pólitískum átakamálum sem bitni helst á honum o.fl. Ég fæ ekki séð hvers vegna gamlar hleranir ættu að vera Birni að kenna né heldur hvers vegna hann tekur þær til sín. Hinsvegar er alveg ljóst að hann er dómsmálaráðherra og þarf að vinna úr málinu núna hverju eða hverjum sem það var um að kenna. Ég sé ekkert flókið eða árásarkennt við það og finnst talsvert ólíkt Birni Bjarnasyni að takast ekki á við það mál af þeirri röggsemi sem venjulega einkennir hann. Hresstu þig nú við Björn þetta var fín kosning hjá þér. Annars er best að segja ekki orð... ég fæ mína útreið eftir viku;-)
www.flickr.com |