Færslur í október 2006

« september 2006 | Forsíða | nóvember 2006 »

Mánudagur 2. október 2006

Fjarðabyggð og Djúpivogur

SAJRGKAV7230.jpgÍ gær fórum við frambjóðendur í kosningaferð á Reyðarfjörð í Fjarðabyggð og þaðan áfram á Djúpavog. Landið skartaði sínu fegursta í haustlitunum. Ferðafélagar mínir voru þau Sveinn Arnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Kristján Ægir Vilhjálmsson sem ég smellti mynd af á Djúpavogi. Með þeim var ferðin enn skemmtilegri sagðar margar góðar sögur á leiðinni og hlustað á Baggalút. Jónína Rós varð eftir á Egilsstöðum en við hin nutum norðurljósa og stjörnubjarts himins alla leið til Akureyrar.

kl. |Pólitík || Álit (4)

Föstudagur 6. október 2006

Orka, ál og Þeistareykir

Ég fór á gríðarlega fínan fund um stefnu Samfylkingarinnar um náttúruvernd á Húsavík í gærkveldi. Á fundinum voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður flokksins og Kristján L. Möller þingmaður. Ingibjörg Sólrún hélt röggsama framsögu en síðan talaði Hreinn Hjartarson veitustjóri hjá Orkuveitu Húsavíkur. Það var fjársjóður að fræðast af honum um stöðu rannsókna á Þeistareykjum. Sá misskilningur sem verið hefur uppi um að árekstur sé milli stefnu Samfylkingarinnar og nýtingu orku af Þeistareykjum til álbræðslu var ræddur töluvert. Verði af frekari álvinnslu á Íslandi er eðlilegt að hún fari fram þar sem auðvelt aðgengi er að orku á sem náttúruvænstan hátt, á svæði þar sem þensla er ekki í gangi og samfélagsleg áhrif sem mest. Því finnst mér fyllilega eðlilegt að setja Húsavík í forgang í þeim efnum. Þar er stuðningur heimamanna einnig fyrir hendi - og svo sannarlega þörfin fyrir atvinnu.

Continue reading "Orka, ál og Þeistareykir" »

kl. |Pólitík || Álit (2)

Laugardagur 7. október 2006

Borgríki og landsbyggð

Ljóst er að með nútímatækni eru góðir möguleikar á því að vinna fjölbreytta atvinnu nánast hvar sem er á landinu, að því gefnu að netsamband sé afbragðsgott. Þannig mætti auglýsa meirihluta allra starfa þannig að búseta væntanlegs starfsmanns sé frjáls. Þrátt fyrir þetta fækkar störfum á landsbyggðinni í nánast öllum starfsgreinum. Smá saman erum við farin að horfa á þá staðreynd að Ísland hefur verið klofið í herðar niður í sjálfumglatt borgríki annarsvegar og landsbyggð sem smá saman er að færast frá því að vera örvæntingarfull og vonlaus í að fyllast reiði og heift gagnvart núverandi ástandi. Skilningur þverr milli þessara tveggja ólíku ríkja í ríkinu, jöfnuður minnkar og kannski bara tímaspursmál hvenær þessum ríkjum lendir alvarlega saman. Í fáfræði sinni er fjöldi manna sem tekur öxina hvern dag og heggur landið í sundur með því að koma í veg fyrir eða stuðla ekki að því að störfin í landinu megi vinna á landsbyggðinni.

Continue reading "Borgríki og landsbyggð" »

kl. |Pólitík || Álit (7)

Mánudagur 9. október 2006

Egilsstaðir og Húsavík

wIMG_7359_700.jpgÍ gær (sunnudag) fórum við frambjóðendur til Egilsstaða og Húsavíkur. Ferðin var ekki síður skemmtileg en um síðustu helgi en veðrið dálítið daprara. Hinsvegar komumst við í tæri við hreindýr og ég náði að mynda dálítið, hefði verið til í að vera þar miklu lengur. Fundirnir eru hinsvegar að verða miklu skemmtilegri, frambjóðendur komnir í góðan gír í baráttunni sem er hin skemmtilegasta. Nú eru ekki fundir fyrr en aðra helgi en þá í Siglufirði og á Akureyri. Nú er bara að vinna hörðum höndum til að ná kjöri - öll góð ráð vel þegin;-)

kl. |Pólitík || Álit (1)

Þriðjudagur 10. október 2006

Fjölskyldan í forgang

Tímaskortur, hraði, afköst, árangur eru hugtök sem við heyrum nánast daglega. Við hættum að verða vör við þau og lífið taktar hraðar og hraðar án þess að við náum að staldra við og huga að því sem mestu skiptir - fjölskyldunni. Fjölskyldan verður að hafa tíma til þess að vera saman, foreldrar vilja njóta samvista hvort við annað og börnin sín en tíminn til þess verður minni og minni. Orsakirnar eru fjölmargar, atvinna foreldra, eðlileg áhersla á frama í starfi, tímafrekar ferðir milli staða og margt fleira. Ég tel að það sé eitt mikilvægasta mál stjórnmálanna í dag að gera fjölskyldunni kleift að vera hornsteinn samfélagsins, en ekki einungis þess heldur hornsteinn í lífi fólks. Nánast allir málaflokkar tengjast þessu viðfangsefni og það er tími til kominn að fjölskyldan sé sett í forgang.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Miðvikudagur 11. október 2006

Ósjálfstæðisflokkurinn?

Nú berast okkur þau tíðindi að sími fyrrum utanríkisráðherra landsins Jóns Baldvins Hannibalssonar hafi verið hleraður og honum hafi verið kunnugt um það. Aðspurður um hvort hann hafi ekki íhugað kæru svaraði með þeirri spurningu hvert hann hefði átt að kæra?

Þarna kemur einmitt stóra spurningin, hvert getur utanríkisráðherra landsins kært brot á sér? Hann er ráðherra á þessum tíma í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og upplifði greinilega að hann gæti ekki sótt sér þjónustu opinberrar löggæslu sem var undir stjórn Þorsteins Pálssonar sem dómsmálaráðherra.

Var sumsé utanríkisráðherra Alþýðuflokksins í þeirri stöðu að þurfa að þola símhleranir vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn var beinlínis búinn að framselja innri öryggismál þjóðarinnar? Var það, og er það þá ennþá þannig, að Sjálfstæðisflokkurinn gefi einhverjum heimild til að hlera æðstu ráðamenn landsins? Svo ég spyrji nú bara einfaldrar spurningar - má það??? Hefur Sjáfstæðisflokkurinn haft aðgang að einhverri leyniþjónustu og með brotthvarfi hersins sé þá gripið til þeirra ráða að stofna innlenda þjónustu til að sinna fyrri verkum? Ég er dálítið furðu lostin í þessu máli, þarna er mörgum spurningum ósvarað.

kl. |Pólitík || Álit (3)

Laugardagur 14. október 2006

Börnin heim

Að vera tilFyrir þá sem ekki búa nálægt framhaldsskóla er ekki um annað að ræða en senda börnin sín að heiman 16 ára gömul til að þau njóti menntunar. Ég hef í starfi oft tekið á móti þessum börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref að heiman. Ég man eftir hæglátu stúlkunni sem grét því hana langaði heim, drengnum sem var svangur og vissi ekki hvernig hann átti að þvo fötin sín. Stúlkunni sem hallaði sér að langtum eldri manni sem "hugsaði um hana" þegar hún var farin að heiman. Drengnum sem vildi vera flottastur og var fullur allar helgar. Einmanaleikinn var þeim öllum sameiginlegur. Auðvitað á þetta ekki við um öll börn sem fara snemma að heiman, en eitt eiga þau sameiginlegt, fjölskyldan getur ekki verið þeim sami bakhjarl og þeim sem búa heima hjá sér.

Continue reading "Börnin heim" »

kl. |Pólitík || Álit (1)

Sunnudagur 15. október 2006

Nýtt útlit

Mér til mikillar gleði er Dagný Reykjalín búin að hanna nýtt útlit á mig. Hún hefur séð um útlitshönnunina mína í nokkur ár og ég er alltaf jafnánægð með hana. Helga Kvam tók myndina af mér. Er þetta ekki bara fínt?

kl. |Tilveran || Álit (8)

Sunnudagur 15. október 2006

Hrísey, Svarfaðardalur, Ólafsfjörður

Hrísey frá sjóÍ dag fórum við Gísli minn fyrst út í Hrísey þar sem ég hitti gott fólk í kaffi og við ræddum pólitík. Það var gaman að sigla með ferjunni í smá úfnum sjó. Ég náði að mynda talsvert með nýju linsunni minni sem ég hlakka itl að fást við eftir prófkjör. Síðan fórum við að Húsabakka í Svarfaðardal þar sem var kynning á félögum og félagsstarfsemi í bæjarfélaginu en þar er greinilega hægt að fást við gríðarlega margt. Þaðan fórum við síðan til Ólafsfjarðar en Gísli er einmitt þaðan. Skemmtilegur dagur enda brúðkaupsafmælið okkar;-)

kl. |Pólitík || Álit (1)

Mánudagur 16. október 2006

Síðustu forvöð

Nú fer hver að verða síðastur að skrá sig í Samfylkinguna til að taka þátt í prófkjörinu í Norðausturkjördæmi. Menn geta skráð sig hér með nokkuð einföldum hætti og tekið þátt. Ég hvet alla sem vilja hafa áhrif í flokknum að skrá sig endilega sem fyrst, skráningu lýkur annaðkvöld, þriðjudagskvöld kl. 22:00. Hér er innskráningarsíðan á vefnum.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Fimmtudagur 19. október 2006

Íbúaþing í Dalvíkurbyggð

Nú á laugardag er íbúaþing í Dalvíkurbyggð þar sem íbúar ætla að koma saman og skiptast á skoðunum um hvernig þau vilja sjá samfélagið sitt til framtíðar. Íbúaþing sem þetta eru til mikillar fyrirmyndar og virkja íbúa til þess að taka þátt í því að móta samfélagið sem þannig er líklegra til þess að þjóna íbúum sínum betur.


Ég man eftir íbúaþinginu hér á Akureyri þar var gaman að setjast niður með öðrum sem maður hitti ekki daglega eða þekkti ekki neitt og vera sameiginlega að velta fyrir sér bænum sínum. Ég held að það hljóti að hafa áhrif á okkur og gera okkur þar með virkari og eftirtektarsamari um hvað má fara betur og ekki síst hvað er gott þannig að við viljum varðveita það. Ég hlakka mjög til að sjá tillögur og hugmyndir frá íbúaþinginu í Dalvíkurbyggð enda ægifagurt sveitarfélag sem býður upp á marga góða kosti.

kl. |Pólitík ||

Föstudagur 20. október 2006

Fjölgun í Samfylkingunni

Það voru gleðitíðindi hversu mikið fjölgaði í Samfylkingunni í yfirstandandi prófkjöri. Greinilegt er að margir vilja ganga til liðs við flokkinn og velja framvarðarsveit flokksins í komandi kosningum. Þetta fyllir mann bjartsýni um gengi í komandi kosningum ef okkur tekst að velja öfluga framvarðarsveit sem verður dugleg í kosningunum í vor. Reyndar er ég viss um að svo verður því það er öflugt fólk í framboði sem mun auðvitað skipa efstu sætin í vor;-)

kl. |Pólitík || Álit (5)

Mánudagur 23. október 2006

Kjörseðlar bornir í hús

Í dag eru kjörseðlar í prófkjörinu okkar í Norðausturkjördæmi bornir í hús. Þá skiptir miklu máli að koma þeim í gagnið með því að merkja við og setja þá í póst. Ég vil hvetja alla að nýta kosningaréttinn og enn betra ef þeir vilja kjósa mig í 2. sæti listans. Við Samfylkingarmenn erum nú eini flokkurinn sem á ekki konu sem þingmann í Norðausturkjördæmi og eina kjördæmið þar sem Samfylkingin á ekki konu sem þingmann. Þessu þurfum við auðvitað að breyta;-) Bjóðist endilega til að grípa með ykkur umslög grannanna í pósthúsið og ef einhver er í vandræðum með að koma atkvæðunum á sinn stað endilega hafið samband í síma 896-3357 og stuðningsmenn mínir munu með ánægju skutlast í póstinn fyrir ykkur.

kl. |Pólitík || Álit (1)

Þriðjudagur 24. október 2006

Konur og pólitík

Í stjórnmálum er oft talað um konur, skort á þeim, framgang, hvort þær hafi önnur viðhorf og margt fleira. Hér í Norðausturkjördæmi er staðan sú að Samfylkingin einn flokka hefur ekki konu sem þingmann en það finnst mér frekar bagalegt því ég tel að bæði kynin þurfi að eiga fulltrúa og vinna saman fyrir flokkinn í kjördæminu. Sem betur fer erum við eina kjördæmið þar sem Samfylkingin er í þessari stöðu enda gríðarlega stór og góður hópur kvenna sem er á þingi fyrir flokkinn. Í þessu ljósi fannst mér ekki koma annað til greina en að bjóða mig fram í annað sætið í yfirstandandi kjördæmi. Svo er bara að sjá hvort ég hef dug til að ná því þar sem mikið mannval er í prófkjörinu og margt sem þarf að huga að.

kl. |Pólitík || Álit (3)

Föstudagur 27. október 2006

MindManager, handverk og pólitík

Í morgun var ég mætt út á flugvöll um sjöleytið því vinnudagurinn var fyrir sunnan. Loftleiðir, MH, Þekking og síðast sýningin Handverk og hönnun. Fyrst fór ég á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum sem byrjaði nánast á sömu mínútunni og ég gekk í salinn. "Takk fyrir Reykjavíkurflugvöll" hugsaði ég í þúsundasta sinn. Án hans hefði ég ekki getað sofið heima í nótt. Ráðstefnan sem var um MindManager og JCVGantt var frábær og eiga Verkefnalausnir heiður skilinn fyrir hana. Ég er búin að sjá marga fleiri möguleika til að nota þessi tól og nú síðast datt mér í hug að það væri frábært í pólitík, þarf að prófa það;-)

Continue reading "MindManager, handverk og pólitík" »

kl. |Pólitík / Tilveran / UT / Vinnan ||

Laugardagur 28. október 2006

Ráðist á homma í Færeyjum

Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég fékk póst um að ráðist hefði verið á ungan homma í Færeyjum - bara vegna þess að hann er hommi og að mannréttindi samkynhneigrða séu ekki tryggð í landinu og að "aðstoðarlögreglustjórinn í Þórshöfn lýsti því yfir á dögunum að lögreglan hefði ekki lagaheimild til að vernda og verja samkynhneigða þegna landsins ef að þeim væri sótt með hótunum og ofsóknum." (Samtökin 78). Til að glöggva mig á málinu fór ég á vefsíðu Dimmalætting í Færeyjum og skoðaði vefsíðu Samtakanna 78 og viti menn þetta var ekki grín, ekki spam, ekki bull, heldur nöturlegur sannleikur. Ég vil því hvetja alla til að rita nöfn sín undir yfirlýsinguna "Act Aganist Homophobia". Þetta er gersamlega ólíðandi, við munum þegar Ísland hrakti af sér gott fólk vegna kynhneigðar - slíkt á hvergi að líðast.

kl. |Pólitík || Álit (1)

Sunnudagur 29. október 2006

Mér að þakka en öðrum að kenna

Þegar ég renndi yfir pistil Björns Bjarnasonar um prófkjör Sjálfstæðismanna þá rifjaði ég upp hversu oft nemendur þakka sér þegar þeir fá góðar einkunnir en kenna kennaranum um þegar þær eru slæmar. Viðbrögðin Björns komu mér á óvart, hann er mikill baráttujaxl, þaulvanur í pólitík og röggsamur ráðherra. Þó ég sé ekki sammála honum um hin ýmsustu viðhorf þá hvarflar ekki að mér annað en segja að hann er mjög vinnusamur ráðherra, duglegur og samviskusamur. Hann hefur fengið á sig ýmsan brotsjóinn í pólitík en yfirleitt staðið hnarreistur og manni finnst oft að ekkert bíti á þennan mann. En nú kvartar hann undan bréfi frá gömlum ráðherra Alþýðuflokksins, auglýsingum samherja sinna, pólitískum átakamálum sem bitni helst á honum o.fl. Ég fæ ekki séð hvers vegna gamlar hleranir ættu að vera Birni að kenna né heldur hvers vegna hann tekur þær til sín. Hinsvegar er alveg ljóst að hann er dómsmálaráðherra og þarf að vinna úr málinu núna hverju eða hverjum sem það var um að kenna. Ég sé ekkert flókið eða árásarkennt við það og finnst talsvert ólíkt Birni Bjarnasyni að takast ekki á við það mál af þeirri röggsemi sem venjulega einkennir hann. Hresstu þig nú við Björn þetta var fín kosning hjá þér. Annars er best að segja ekki orð... ég fæ mína útreið eftir viku;-)

kl. |Pólitík || Álit (2)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.