Færslur í maí 2007

« apríl 2007 | Forsíða | júní 2007 »

Miðvikudagur 2. maí 2007

Þrumað á 1. maí

Ég hef alltaf gaman af því að fara á 1. maí hátíðarhöldin á Akureyri. Ganga um bæinn með lúðrasveit og hugsa um það sem skiptir máli. Svo var einnig framan af fundi í gær, ég hafði ánægju af ræðu Örnu Jakobínu Björnsdóttur formanni Kjalar, sem ég vildi gjarnan sjá á heimasíðu félagsins, sem og Soffíu Gísladóttur framkvæmdastjóra Kjalar sem ræddi raunhæfnismat þ.e. að fólk geti látið meta þekkingu sína til náms enda hafi það staðist ákveðið mat. Þarna er ekki um gjaldfellingu á námi að ræða heldur getur einstaklingur sem hefur menntað sig sjálfur fengið þá menntun metna. Þetta er mikið framfaraspor og ánægjulegt að það verður mögulegt að fá slíkt mat hér á Akureyri með haustinu. Báðar töluðu þær Arna Jakobína og Soffía vel til fólksins í Sjallanum sem var stútfullur af fólki. Síðan kom að alþingismanni Vinstri grænna og frambjóðanda í kosningum eftir tólf daga, en hann þrumaði yfir fólki við háa raust vel rúman hálftíma. Ýmislegt var gott í ræðu alþingismannsins sem var þarna sem fulltrúi launafólks í BSRB enda ríkisstarfsmaður og formaður félagsins. Maðurinn kemur afar vel fyrir sig orði og talaði annarsvegar um baráttumál launafólks og hinsvegar predikaði hann svo hver prestur hefði verið fullsæmdur af. Dálítið ofsafengin orðræða - en stundum skemmtileg líka ef maður gætir þess að hafa í huga hver talar. Ræðan er í heild sinni hér.

Continue reading "Þrumað á 1. maí" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Fimmtudagur 3. maí 2007

Nám fanga

Fyrir nokkru sá ég umfjöllun um háskólanám fanga í þættinum 60 mínútur. Ég fór því að skoða hvort fangar hér á landi hefðu tök á því að stunda nám í háskóla. Ég fann þess engin merki en þrátt fyrir það gæti sá möguleiki verið fyrir hendi. Í tveimur fangelsum er möguleiki á því að stunda framhaldsskólanám þ.e. í fangelsinu að Litla Hrauni þar sem Fjölbrautaskóli Suðurlands sinnir kennslunni og í fangelsinu að Kópavogsbraut 17 þar sem Menntaskólinn í Kópavogi sinnir verkefninu.

Þrátt fyrir nálægð fangelsisins á Kvíabryggju við Fjölbrautaskóla Snæfellinga, né heldur í fangelsinu á Akureyri sem er nálægt Verkmenntaskólanum á Akureyri sem og Menntaskólanum á Akureyri. Ekki er heldur hægt að sjá að kennsla fari fram í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg.

Continue reading "Nám fanga" »

kl. |Pólitík || Álit (2)

Föstudagur 4. maí 2007

Sturla á flótta?

Undarlegar þykja mér fréttir af Sturlu Böðvarssyni þessa dagana og veit ekki alveg hvar stendur á mig veðrið. Fyrst eru vandamál Grímseyjarferjunnar vélsmiðju að kenna sem stundar viðgerðir á henni og svo Grímseyingum.

Síðan verður hann hvefsinn mjög þegar Greið leið segist ekki geta haldið áfram með Vaðlaheiðargöng vegna þess að peninga skortir og þá er það Samfylkingunni að kenna. Ég veit ekki til þess að Samfylkingin hafi sérstaklega beitt sér fyrir því að fjárveitingin væri bara 100 milljónir á ári næstu þrjú ár þegar Greið leið hefur sagt skýrt að það vanti ríflega 700 milljónir og ríkisábyrgð. Þetta gerði samgönguráðherrann alveg sjálfur. Greið leið getur ekki haldið áfram en ætlar auðvitað að berjast áfram fyrir málinu það er ljóst og kosningar eftir viku og þá getur margt breyst.

Hvers konar ábyrgðarleysi og flótti er hlaupinn í Sturlu Böðvarsson þessa dagana?

En mikið óskaplega væri gaman að losna við Sjálfstæðisflokkinn úr samgönguráðuneytinu eftir allan þennan tíma sérstaklega í ljósi þess að ráðherrann áttar sig ekki lengur á því sjálfur að hann er ráðherra þar.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 5. maí 2007

Ráðuneytum breytt í kosningaskrifstofur

Ágúst Ólafur Ágústsson hefur tekið saman loforð ráðherranna síðustu 10 daga og ég verð að viðurkenna að ég hreinlega skammast mín fyrir að vera stjórnmálamaður þegar ég horfi á þetta. Hvernig dettur fólkinu í hug að moka út 22 loforðum rétt fyrir kosningar? Ætti fólkið ekki frekar að vera í kosningabaráttu eins og við hin í stað þess að sitja í ráðuneytunum og láta starfsfólk þar útbúa alskyns kosningaloforð sem síðan er mokað út, ráðherrar fara síðan á staðinn og tilkynna út og suður og láta taka af sér mynd??? Þetta er síðasta sort.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 7. maí 2007

Áhugavert myndband

Það rifjast margt upp við að horfa á þetta myndband:

kl. |Pólitík || Álit (1)

Mánudagur 7. maí 2007

Frjóa Ísland - menningarstefna

Menningarstefna Samfylkingarinnar er metnaðarfullt plagg sem var kynnt í dag. Ég er ánægð með margt í henni og þá sérstaklega áherslu á að byggja upp Náttúruminjasafn, það er allt of lítið gert af því að huga að söfnum á náttúrusviði og tími kominn til að draga þá hluti fram.

Einnig er spennandi að sjá áherslu á sköpun á öllum skólastigum því ég tel að við náum miklu betri árangri ef við erum vel þjálfuð í frumkvæði og sköpun. Þannig náum við að vaxa í síbreytilegu þjóðfélagi.

Endilega kíkið á stefnuna.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 7. maí 2007

Háhraðasamband skiptir máli

Það er ótrúlegt að menn trúi því að Google fari að nota Ísland sem geymslusvæði fyrir gögn. En það er algerlega vonlaust á meðan við höfum óörugga og of litla burðargetu á gögnum til landsins. Sæstrengirnir sem við erum með núna eru algerlega ófullnægjandi eins og þeir sem vinna við upplýsingatækni og þá sérstaklega útflutning í gegnum Netið vita með vissu. Eins er afar ólíklegt að landsbyggðin njóti þess að setja upp slíka þjónustu þar sem pípurnar þurfa að vera sem breiðastar. Tja nema menn fari að viðurkenna þá staðreyndir að sæstrengirnir koma til landsins annarsvegar í Seyðisfirði ef ég man rétt og hinsvegar í Vestmannaeyjum. Þá væri hægt að setja slíka þjónustu þar og láta landið afturfyrir í gagnaröðinni - en því getur ekki nokkur maður verið hlynntur.

Betra gagnasamband við landið er ekki á næstu grösum, lagning sæstrengs tekur tíma.

Háhraðasamband á landsbyggðinni er víða afar dapurt eða ekkert. Fjarskiptasjóður sem bráðum fer að bjóða út þjónustu nefnir hugmyndir um að lágmarkskrafa "gæti orðið" frá 512 Kb/s sambandi sem er gamaldags sambands og úrelt áður en það er sett upp. Sem betur fer er þetta ekki ákvarðað heldur bara hugmynd en nauðsynlegt er að hafa s.k. "fegurðarsamkeppni" þ.e. að taka því boði sem býður upp á bestu þjónustu en ekki lágmarksþjónustu þó hún kosti meira. Mér er hinsvegar til efs að þeir fjármunir sem hafa verið settir í málið dugi til þess að gefa landsbyggðinni svo gott Netsamband að allir geti stundað atvinnu hvar sem er á landinu.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Miðvikudagur 9. maí 2007

Aldraðir eiga betra skilið

Þetta myndband segir meira en mörg orð!

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 12. maí 2007

Til hamingju með daginn!

Þá er kjördagur runninn upp og ég vil nota tækifærið til að þakka öllum samstarfið í gríðarlega skemmtilegri kosningabaráttu. Samstarfsfólkið hefur verið frábært, ég er búin að læra margt og margar ógleymanlegar minningar hafa skapast í baráttunni.

Ég vona að uppskeran verði góð og markmiðin náist. Allavega er ástæða til að senda bestu kveðjur til allra sem voru með en einhver hafði tíma til að snikka hausinn á mér á góðan dansara í útlöndum svo ég læt það bara fylgja hér með mínum bestu kveðjum.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Sunnudagur 13. maí 2007

Skólabarn á ný

Ég hét þess að ef ég kæmist ekki á þing þá færi ég í skóla að læra ljósmyndun. Ákveðin í að breyta tilverunni og líta upp frá tölvum sem ég hef unnið við frá 1981. Svo nú er ég að velja mér námskeið og skoða kennslubækur því sumarönnin hefst um miðjan júní.

Vil nota tækifærið og þakka öllum sem reyndust mér vel í kosningabaráttunni fyrir lærdómsríkan og skemmtilegan tíma;-)

kl. |Pólitík || Álit (1)

Laugardagur 19. maí 2007

Prófið búið

Jæja þá er ég búin í Toefl prófinu en það er langt síðan ég hef tekið fjögurra tíma próf þannig að þetta var talsvert álag. Prófið var heilmikil vinna en ég vona að ég hafi nú náð því sæmilega. Það var síðan ágætt að vera í góða veðrinu í Reykjavík í gær en það er alveg sama hvað ég kem oft það er ævinlega léttir að komast út úr umferðinni þar. Föstudagssíðdegi eru jú álagstími og ég fékk að hanga í löngum röðum á leiðinni út úr bænum. Ég kom við á Akranesi á leiðinni norður hjá Jóhönnu og við skipulögðum hvernig ég kæmi að sýningunni í sumar. Síðan keyrði ég norður í ægifögru veðri, hefði getað stoppað oft til að mynda ský en vildi vera komin heim fyrir miðnætti. Skólabækurnar mínar voru komnar þannig að nú get ég byrjað að lesa þrátt fyrir að sumarönnin í Academy of Art University byrji ekki fyrr en 21. júní þá ætla ég að taka það margar einingar yfir sumarið að mér veitir ekki af. Það verður spennandi að byrja í MFA náminu og ég hlakka mikið til.

kl. |Ljósmyndun || Álit (1)

Mánudagur 28. maí 2007

Camera obscura

Ég er að byrja að lesa ljósmyndasöguna en ég tek þrjá áfanga í ljósmyndanáminu á sumarönninni sem hefst 21. júní þ.e. ljósmyndasögu, vinnslu stafrænna ljósmynda og eðli ljósmynda. Nokkrum sinnum hefur verið fjallað um "camera obscura" eða svarta herbergið. Ég er núna að reyna að skilja það til hlítar en á eftir eitthvað. Hvað um það eins og með ótrúlega margt þá var það Leonardo da Vinci sem skilgreindi camera obscura en árið 1490 skrifar hann um það í tæplega 1500 síðna riti sínu Atlantic Codex. En hinsvegar er því haldið fram á Wikipedia að múslimski fræðimaðurinn Abu Ali Al-Hasan hafi lýst fyrirbærinu fyrst einhversstaðar í kringum árið 1000. Mér datt í hug hvort da Vinci hafi e.t.v. ekki fundið allt upp sjálfur sem hann skrifaði heldur grúskað í arabískum gögnum en það skiptir kannski ekki mestu hver var fyrstur heldur að fyrirbærið sé til.

Continue reading "Camera obscura" »

kl. |Ljósmyndun || Álit (2)

Mánudagur 28. maí 2007

Af hverju múslimi?

Eins og ég skrifaði um í gær þá er ég að grafa mig í gegnum ljósmyndasöguna. Þar datt ég um Ibn al-Haytan, sem heitir líka Abu Ali al-Hasan, Ibu al-Hasan og stundum kallaður al-Basri. Afar merkilegur vísindamaður sem fyrstu er talinn hafa skilgreint camera obscura en í því sem ég finn um hann er það dregið fram að hann hafi verið múslimi. Ég hef ekki rekist á að það sé talað um trúarhneigð nokkurs annars í ljósmyndasögunni en hér er þetta skýrt, hann var múslimskur vísindamaður. Múslimi þýðir "sá sem gefur sig Guði" eða "one who submits to God" og getur því þýtt að hann hafi verið trúaður maður.

Hinsvegar sýnist mér að hin vestræna saga tali ekki mikið um al-Hasan og velti enn fyrir mér hvort Leondardo da Vinci hafi e.t.v. lesið arabísku og allar hans mýmörgu uppgötvanir e.t.v. að einhverju leyti verið þýðingar úr arabískum ritum enda var þróuð menning í Persíu.

En nóg af vangaveltum í bili... þetta er allavega áhugvert.

kl. |Ljósmyndun || Álit (2)

Mánudagur 28. maí 2007

Myndir af sjálfum sér

Ég var að lesa um portret myndir í dag, það sem vakti helst athygli mína var allt það stúss sem var í kringum þessar myndir um miðja nítjándu öld. Lýsingartíminn var langur og því mátti myndefnið ekki hreyfa sig. Menn héldu í stólarma, kreptu hnefann og höfðu e.k. stuðning við höfuðið til að geta verið alveg kyrrir. Nú skil ég betur þetta kvalda útlit sem er á flestum gömlum myndum. Þetta hefur verið alger tortúr.

Annars er ég hrifin af daguerreotype myndum sem Antoine Francois Claudet tók í kringum 1850 hann stillti fólki skemmtilega upp. Markmiðið var að myndin endurspeglaði líf fólks og segði eitthvað meira en bara andlitið.

Málarar þessa tíma töldu að ljósmyndarar væru bara lélegir listmálarar og því færu þeir út í þessa vitleysu. Ég er handónýtur listmálari svo líklega er þetta bara alveg hárrétt;-) En ljósmyndirnar voru dýrar, það kostaði sama að láta taka af sér mynd og að borða á veitingahúsi í heilan mánuð.

kl. |Ljósmyndun || Álit (0)

Þriðjudagur 29. maí 2007

Mikið fjör og mikið gaman

Það þarf nú að líta upp og skemmta sér öðru hvoru, hafði gaman af þessari vefsíðu þar sem hægt er að kveikja og slökkva á hljóðfæraleikurum. Fékk þetta frá brasilískri vinkonu minni og þetta er ekta suðrænn kraftur;-)

kl. |Tilveran || Álit (0)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.