Nýjir tímar
Ég ákvað að segja upp í vinnunni um þessi mánaðarmót þrátt fyrri að hún sé að mörgu leyti mjög skemmtileg. Ég hef verið að byggja upp Tölvuskólann Þekkingu hér á Akureyri og verið í skemmtlegu samstarfi við starfsmennina í Reykjavík sem hafa að mestu séð um starfsemina þar. Það hefur gengið býsna vel að stofnsetja öflugan skóla í bænum og aðsóknin hefur verið framar vonum. Sérstaklega hefur verið gaman að taka þátt í að byggja upp meira nám fyrir áhugaljósmyndara sem ég mun kannski gera samt sem áður og væri virkilega gaman því ég er með margar hugmyndir í því.
Það að vera framkvæmdastjóri þýðir talsvert langan vinnutíma og mikið áreiti sem passar ekki reglulega vel með því sem ég vil vera að gera. Núna næstu mánuði verður auðvitað mest að gera í framboðsvinnunni sem er gríðarlega skemmtileg en síðan vil ég fá meiri tíma fyrir ljósmyndunina og lagasmíðina. Bókin okkar Gísla kemur út í næstu viku og hefur fengið heitið Vinaslóðir en það væri gaman að fylgja henni eitthvað eftir.
Þrátt fyrir að það felist alltaf einhver óvissa í því að ákveða að breyta til þá eru alltaf ný tækiæri og skemmtilegir hlutir að fást við þannig að ég er bara spennt fyrir því að finna út eitthvað skemmtilegt að gera.