Færslur í mars 2007

« febrúar 2007 | Forsíða | apríl 2007 »

Fimmtudagur 1. mars 2007

Nýjir tímar

Ég ákvað að segja upp í vinnunni um þessi mánaðarmót þrátt fyrri að hún sé að mörgu leyti mjög skemmtileg. Ég hef verið að byggja upp Tölvuskólann Þekkingu hér á Akureyri og verið í skemmtlegu samstarfi við starfsmennina í Reykjavík sem hafa að mestu séð um starfsemina þar. Það hefur gengið býsna vel að stofnsetja öflugan skóla í bænum og aðsóknin hefur verið framar vonum. Sérstaklega hefur verið gaman að taka þátt í að byggja upp meira nám fyrir áhugaljósmyndara sem ég mun kannski gera samt sem áður og væri virkilega gaman því ég er með margar hugmyndir í því.

Það að vera framkvæmdastjóri þýðir talsvert langan vinnutíma og mikið áreiti sem passar ekki reglulega vel með því sem ég vil vera að gera. Núna næstu mánuði verður auðvitað mest að gera í framboðsvinnunni sem er gríðarlega skemmtileg en síðan vil ég fá meiri tíma fyrir ljósmyndunina og lagasmíðina. Bókin okkar Gísla kemur út í næstu viku og hefur fengið heitið Vinaslóðir en það væri gaman að fylgja henni eitthvað eftir.

Þrátt fyrir að það felist alltaf einhver óvissa í því að ákveða að breyta til þá eru alltaf ný tækiæri og skemmtilegir hlutir að fást við þannig að ég er bara spennt fyrir því að finna út eitthvað skemmtilegt að gera.

kl. |Tilveran || Álit (3)

Föstudagur 2. mars 2007

Austurland

Aftur var ferðinni heitið austur í vikunni sem var frábært, ég minntist ungliðanna okkar sem missa nánast málið þegar þeir sjá að þjóðvegur 1 er ekki malbikaður allan hringinn en einmitt þegar farið er austur verður maður var við það. Meginástæðan er sögð vera að menn geti ekki gert upp við sig hvar hann á að liggja og þá sé ekki ástæða til að malbika á meðan. Furðuleg röksemdarfærsla, eins og þetta séu einu blettirnir á þjóðveginum þar sem menn þurftu að taka af skarið og setja veginn niður. Fyrst og fremst er þetta auðvitað partur af slæglegum vinnubrögðum.

Ég held að menn ættu nú að setja það í forgang að klára hringveginn þetta er okkur ekki til sóma.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 3. mars 2007

Ég skil ekki Framsóknarmenn

Í ályktun frá landsfundi Framsóknarmanna stendur Að í stjórnarskrá standi: „Auðlindir Íslands utan eignalanda eru sameign íslensku þjóðarinnar“. Með auðlindum er átt við nytjastofna á Íslandsmiðum, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netalaga og náttúruauðlindir í þjóðlendum.

Ég hef ekki séð þess nein merki, hvorki í orði né á borði að þetta sé stefna flokksins í þau 12 ár sem hann hefur verið í ríkisstjórn en nú kortéri fyrir kosningar. Ennfremur var viðtal við formann flokksins í kvöldfréttum ákaflega sérkennilegt þegar hann reyndi að böggla því út úr sér að þetta væri ekki verkefni stjórnarskrárnefndar heldur ríkisstjórnar. Ég hélt að stjórnarskráin hefði verið verkefni stjórnarskrárnefndar.

Ég skil ekki þetta mál, er það sama upp á teningnum og fyrir síðustu kosningar þegar Framsóknarmenn lögðust í harða stjórnarandstöðu rétt fyrir kosningar og fram yfir kjördag þar sem allt var Sjálfstæðisflokknum að kenna. Annað hvort af því þeir höfðu ráðuneyti viðkomandi málaflokks eða ef svo hrapallega vildi til að um var að ræða þeirra eigið ráðuneyti þá var það fjármálaráðherra að kenna.

Virkar þetta??? Ef svo - er það virkilega þess virði?

kl. |Pólitík || Álit (2)

Sunnudagur 4. mars 2007

Íðilfagur tunglmyrkvi

Ég var að leika mér að taka myndir af tunglmyrkvanum með frekar lélegum árangri, fór inn á ljosmyndakeppni.is og fór að spyrja ráða. Þaðan inn á Flickr til að skoða stillingar hjá þeim sem höfðu tekið myndir af sólmyrkvum í heiminum. Út aftur og mynda í gríð og erg.

Síðan var að spreyta sig á vinnslunni og það tók einhvern tíma en nú er ég orðin þokkalega sátt við myndirnar mínar af tunglinu;-)

Ef menn smella á einhverja myndanna minna til hægri er farið inn á myndasafnið mitt á Flickr og þar má skoða afraksturinn.

kl. |Ljósmyndun || Álit (1)

Þriðjudagur 6. mars 2007

Skógrækt og kolefnisbinding

Þegar ég var fyrir austan fyrir helgi heimsótti ég meðal annars skógræktarstöðina Barra á Egilsstöðum. Þar hitti ég Skúla Björnsson framkvæmdastjóra og við fórum að ræða skógrækt og sérstaklega möguleika hennar á að binda kolefni í jarðvegi og gróðri. Skúli benti mér á ýmis merki þess að líklegt má telja að fólk og fyrirtæki séu farin að hyggja að því að sjá til þess að binda kolefni í samræmi við koltvísýring sem sleppt er út í andrúmsloftið.

Möguleikar okkar Íslendinga á því að binda kolefni eru miklir þar sem við eigum mikið af gróðursnauðu landi eftir uppfok og gróðureyðingu. Samkvæmt ódagsettum upplýsingum á vef Landgræðslunnar er talið að með uppgræðslu megi binda kolefni sem samsvarar allri losun gróðurhúsalofttegunda í 500 ár.

Nú má gera ráð fyrir að kvóti verði á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og því brýnt fyrir fyrirtæki að binda kolefni til þess að nýta kvótann vel. Eins og við vitum hafa Samfylkingarmenn á Húsavík lagt til að ef verður af álveri þar þá muni verða sérstök áætlun og aðgerðir í kolefnisbindingu á sama tíma. Enda eru þar miklir áhugamenn um skógrækt. En það er spurning hvort það verði ekki framtíðaratvinnuvegur á Íslandi að selja trjáplöntur og gróðursnauð svæði til að selja kolefnisbindingu þannig að fyrirtæki sem losa gróðurhúsalofttegundir geti haldið áfram rekstri.

Verður þetta til þess að Ísland verði aftur íðilgrænt?

kl. |Pólitík || Álit (0)

Miðvikudagur 7. mars 2007

Jöfnum leikinn

Við Samfylkingarmenn segjum oft "við erum jafnaðarmenn" en það er ekki alltaf að menn skilja hvað það felur í sér. Sumir segja að með því að jafna leikinn þá séum við að kippa fótunum undan hinu og þessu sem er alger misskilningur. Fyrst og fremst fjallar jöfnuðurinn um að gefa fólki jöfn tækifæri í lífinu. Ekki ganga svo nærri þeim sem standa veikum fótum að þeir hafi ekki möguleika á að bjarga sér.

Jöfnður felst í svo mörgu. Jöfnuði milli landsbyggðar og borgar, ríkra og fátækra, sjúkra og heilbrigðra, eldri borgara og yngri og svo mætti lengi telja.

Er það ekki fyrst og fremst mannúð að styðja fólk til að geta lifað mannsæmandi lífi?

kl. |Pólitík || Álit (0)

Fimmtudagur 8. mars 2007

Vinaslóð komin úr prentun

Ég er býsna stolt að hafa bókina okkar Gísla í höndunum sem ber heitið Vinaslóð. Gísli samdi ljóðin en ég tók ljósmyndirnar. Formlegur útgáfudagur er í tengslum við fimmtugsafmælið mitt á morgun eða þegar ég verð L-ára en L er sem kunnugt er 50 í rómverskum tölum.

Ritið er tileinkað bekkjarfélögum okkar Gísla frá Samvinnuskólanum á Bifröst en þar vorum við veturna 1974-1976 og hefur þessi bekkur haldið mjög vel saman enda urðum við vinir fyrir lífstíð í skólanum. Hver og einn úr bekknum, við Gísli meðtalin, á sína opnu í bókinni eitt ljóð og eina ljósmynd sem saman skapa ákveðna heild. Jóhanna Leopoldsdóttir bekkjarsystir okkar er aðal hvatamaðurinn að verkinu enda er hún framkvæmdastjóri bekkjarins sem við hlýðum nánast í einu og öllu. Enda er það svo skemmtilegt;-)

Continue reading "Vinaslóð komin úr prentun" »

kl. |Ljósmyndun || Álit (7)

Föstudagur 9. mars 2007

Afmæli í dag;-)

Þá er afmælisdagurinn kominn og ég orðin L-ára s.k.v. rómverskum tölum;-) Tímamót eru virkilega skemmtileg og sérstaklega þegar margir fagna þeim með manni. Ég hef fengið þá stærstu afmælisgjöf sem ég gat óskað mér með bókinni Vinaslóð þar sem svo margir gera okkur Gísla mínum kleift að gefa út ljóðaljósmyndabók.

Nú sendi ég bara knús til allra sem eru mér svo góðir, auðga líf mitt og gera það svo dæmalaust skemmtilegt;-)

kl. |Tilveran || Álit (20)

Laugardagur 10. mars 2007

Veisla í undirbúningi

Nú er veisluundirbúningur á fullu, hópur saxar grænmeti, flakar fiska og sýður súpur. Aðrir setja upp hljóðkerfi, sumir dúka borð, aðrir undirbúa bækurnar og sumir í sendiferðum. Nokkrir afar laumupúkalegir en aðrir eru bara að leika sér á skíðum eða í búðum. Nokkrir enn á leiðinni norður en flestir komnir.

Þetta verður frábær afmælisveisla sem ég er mjög farin að hlakka til og ekkert annað kemst að í dag;-)

kl. |Tilveran || Álit (2)

Sunnudagur 11. mars 2007

Frábærir tónleikar!

Afmælið mitt varð stórkostlegt, segja má að það hafi verið tónleikar í þrjá tíma ásamt alskyns uppákomum. Ég bannaði ræður enda voru stjórnmálamenn í boðinu sem hefðu haldið endalausar ræður. Þetta reyndist frábært. Lögin mín voru flutt þ.á.m. jarðarfararlagið sem bæði hinn frábæri kór Hymnodia flutti stórkostlega sem og systurbörn mín þau Matti og Katrín sem settu það í n.k. gospel stíl. Bassi, Unnur og Gísli fluttu lagið mitt "Það er vor" sem ég hef verið að vinna, Gísli söng til mín eigin lög sem var mjög fallegt, ég flutti Lili Marlene og eitt tenórlag, jú og svo bláberjalagið. Unnur Birna og Eyþór voru dásamleg og slógu í gegn. Bassi var frábær og Johnny King einstakur. Litli bróðir söng ógleymanlegt afmælislag og margt fleira gerðist. Þetta var frábært afmæli eða bara frábærir tónleikar;-)

Ég fékk margar góðar kveðjur frá leiðtogum jafnaðarmanna, Ingibjörgu Sólrúnu, Össuri og Helle Thorning-Schmidt, ekki amarlegt það;-)

kl. |Tilveran || Álit (1)

Mánudagur 12. mars 2007

Bæjarmálafundir

Var að koma af góðum bæjarmálafundi Samfylkingarinnar á Akureyri. Við hittumst einu sinni í viku og ræðum bæjarmálin og fátt er fróðlegra en sitja þessa fundi og vera vel með á nótunum um hvað er að gerast í umhverfi sínu. Það eru mörg málin sem fengist er við, skipulagsmál, íþróttamál, skólamál, hafnarmál og margt fleira. Smá saman fær maður gleggri heildarsýn á sveitarfélagið möguleika þess og hvar skóinn kreppir. Gott væri ef fjárveitingar ríkisins væru í samræmi við það sem við viljum vera að gera og svo sannarlega væri einnig gott ef Akureyri væri hálaunasvæði sem gæti borið meiri þjónustu.

Engu að síður er margt hægt að gera og margt sem er í pípunum sem ég vonast til að takist vel.

Á morgun fer ég í kosningaferðalag og byrja á morgun smávegis á Húsavík en síðan á Kópaskeri. Ég hlakka mikið til og auðvitað verður myndavélin í farteskinu.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Þriðjudagur 13. mars 2007

Á Kópaskeri

Ég er nú á Kópaskeri og stödd í Magnavík sem er Netþjónustan á staðnum. Hér er netsambandið mjög gott enda Kópasker þekkt fyrir frumkvöðlastarf á þessu sviði. Það er sniðugt að segja frá því að hárgreiðslustofan á staðnum er í sama húsi. Hef verið i versluninni Bakka að fá mér kaffi en búðin er einstaklega góð með góðu vöruúrvali.

Kópasker finnst mér alltaf notalegur staður með einstaklega fallegri náttúru svo ég tali ekki um fuglalífið á sumrin. Í dag er sól og brim sem ég hlakka til að fanga með myndavélinni á eftir.

Það er gaman að hitta Kristbjörgu og Óla svo ég tali ekki um Lillý sem hefur verið vinkona mín í mörg ár og einstaklega skemmtileg. Við Alenka vinkona mín frá Slóveníu sem er með í för ætlum að gista hér á Víðihóli í nótt sem ég mæli með. Það er gaman að ferðast um kjördæmið og akkúrat eitt af því sem gerir kosningabaráttu svo skemmtilega. Við förum síðan áfram til Raufarhafnar og Þórshafnar á morgun.

kl. |Pólitík || Álit (1)

Föstudagur 16. mars 2007

Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður

Við héldum áfram ferðinni í fyrradag og þá til Þórshafnar í glaðasólskini og blíðu. Þar hitti ég Sturlu og Henrý á Vélaverkstæði Þistils sem Sturla stýrir. Þar var margt skrafað um pólitík en síðan sýndi Henrý mér bæinn, við fórum í íþróttahúsið sem hýsir sundlaug bæjarins, íþróttasal og margt fleira. Þaðan var farið í Hraðfrystistöð Þórshafnar og hittum einstaklega skemmtilega starfsmenn, þaðan fórum við um bæinn og vakti falleg kirkjan athygli mína en hún er tiltölulega ný og þekkt af góðum hljómburði. Við fórum á skrifstofu hreppsins og hittum Björn Ingimarsson sveitarstjóra sem fór yfir hafnarframkvæmdir sem hafa verið talsvert viðamiklar í sveitarfélaginu. Þaðan fórum við í áhaldahús bæjarins og greinilegt að þar eru þúsundþjalasmiðir sem leysa úr ótrúlegustu málum. Þá var haldið áfram til Vopnafjarðar.

Continue reading "Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður" »

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 17. mars 2007

Ekkifréttamennska Morgunblaðsins

Morgunblaðið er komið í kosningaham fyrir Sjálfstæðisflokkinn og finnur sér ýmislegt til dundurs í því verki. Ef það er ekki að búa til ágreining milli manna í Samfylkingunni þá ræðir það hvað formaður Samfylkingarinnar segir ekki og þegar það er rekið ofan í þá að það sé ekki rétt þá bregður það á það ráð að segja að það hafi verið of lítið. Mér finnst þetta drepfyndið og skrifaði litla athugasemd við fréttina og býst fastlega við því að henni verði svarað kröftugt og þá um það sem ég skrifaði ekki um. Ef forystugreinar Morgunblaðsins munu fram að kosningum um það sem ekki er sagt verður spennandi að sjá hvað það velur hverju sinni um hvað hefði átt að segja hverju sinni að þeirra mati.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Laugardagur 17. mars 2007

Mesta misskiptingin?

Finnst nauðsynlegt að halda hér til haga grein Inga Rúnars Eðvarðssonar prófessors við HA um misskiptingu launa milli landsbyggðar og höfuðborgar. Enginn virðist vera að gegn þessu misrétti í raun - ég velti fyrir mér af hverju?

kl. |Pólitík || Álit (0)

Sunnudagur 18. mars 2007

Börnin lítils virði?

Á ferð minni fyrir austan rakst ég á eftirfarandi auglýsingu í Dagskrá þeirra Austfirðinga frá Starfsgreinasambandi Austurlands. Hér er enn ein birtingin á þrælkun íslenskra launþega en hér á börnum okkar. Þjónkun við atvinnurekendur er farin að ganga út í algerar öfgar og menn ganga ótrúlega langt á eigin rétt.

Forfeður okkar börðust fyrir réttindum launamanna og það er óásættanlegt að þeir sem nú lifa og starfa á launamarkaði láti þau fyrir svo lítið sem raunin er. Taumlaus vinnutími á jafnaðarlaunum sem í rauninni er þegar upp er staðið undir lágmarkslaunum er einn þeirra. Alþingi gengur á undan með fordæmi sem er óásættanlegt með vinnutíma langt fram á nætur enda stjórnun á þingstörfum slök.

En er ekki lágmark að berjast gegn þrælkun barna???

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 19. mars 2007

Flensan og ég

Þá loksins fékk ég heiftarlega flensu, hef ekki fengið eina slíka í nokkur ár en nú læddist hún aftan að mér, fyrst lagðist hún á hálsinn, svo hausinn og síðan allan skrokkinn. Ég reyndi að sannfæra mig um að ég væri ekki veik og þetta væri bara lumbra en varð að láta í minni pokann í gær. Ég komst því ekki suður á fund, ekki í kvöld á bæjarmálafund en ég er búin að horfa á myndbandsspólur, snýta mér og sofa. Líklega er bara best að taka þetta út og vera ekkert að þykjast vera alheilbrigður. En mikið er leiðinlegt að vera veikur:-(

kl. |Tilveran || Álit (0)

Fimmtudagur 22. mars 2007

Íslandshreyfing Ómars

Þá er yfirlýsingin komin um framboð Ómars Ragnarssonar Íslandshreyfingin komin fram með bráðabirgðastjórn og fyrstu hugstormun að málefnum án frambjóðenda. Ég veit ekki hvað breyttist í dag varðandi það framboð annað en að það er komið lógó á klúbbinn. Við vissum af fólkinu, vissum af framboðinu en ekki hverjir byðu sig fram né heldur heildarstefnu svo hvorugt breyttist í dag. Þannig að það voru nokkur vonbrigði að ekkert nýtt kæmi fram þannig að þau eru enn við undirbúningsstörf og því bara að óska þeim alls hins besta í því. Ég hafði hinsvegar áhyggjur af því hversu ofsafenginn Ómar var í viðtali við Helga Seljan í Kastljósinu eins og hann væri ekki til í að láta tala við sig eins og stjórnmálamann. Líklega verður þetta mikil breyting fyrir manninn að þurfa að taka þátt í stjórnmálaátökum og fylgja málum eftir.

Ef það er eitthvað afl sem ég held að sé minnst þörf fyrir í dag þá er það enn eitt umhverfisaflið, allir flokkar eru komnir með nokkuð skýra stefnu og hafa sett málið á oddinn út frá mismunandi forsendum flokkanna. En þá virðist það vera ljóst að sex flokkar verða í framboði sem hlýtur að gleðja Sjálfstæðisflokkinn enda mun hann væntanlega maka krókinn við þessar breytingar og þar með tryggja stöðu sína við áframhaldandi stjórn. Ætli blómin á borðinu hafi verið frá honum?

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 24. mars 2007

Breyttar baráttuaðferðir?

Ég hef undrast það undanfarið hversu andstæðingar okkar í pólitík hafa ráðist á formann Samfylkingarinnar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur oft svo hatrammlega að það er erfitt að átta sig á tilganginum. En segja má að pólitískar aðferðir hafi nokkuð breyst og er eitt myndband sem kom fram nýlega í kosningabaráttu demokrataflokksins þar sem stuðningsmaður Obama gerir myndband sem er ekki til stuðnings Obama heldur til að draga úr framboði Hillary Clinton. Þannig virðast stjórnmálin vera að breytast úr því að berjast fyrir því sem einstaklingurinn vill í það að berjast gegn þeim sem hindra framgang eigin frambjóðanda. Hér er þetta dæmi sem minnir mig á ofsóknarkennda baráttu gegn mínum formanni þar sem menn berjast ekki fyrir sínu heldur gegn öðrum.

Hér er um að ræða stolna auglýsingu af Philip de Vellis hann setti nafn sitt ekki við myndbandið í upphafi en þegar það komst upp hver hann væri sagði hann upp í vinnunni hjá tölvufyrirtæki sem m.a. hafði hannað vef fyrir Obama þarna má líka sjá upphaflega myndbandið. Hér er umfjöllun um málið í stjórnmálabloggi Washington Post. En hér kemur hin umdeilda breytta auglýsing:

kl. |Pólitík || Álit (1)

Sunnudagur 25. mars 2007

Gleymt grundvallaratriði?

Þegar ég lærði hagfræði þá varð mér kennd sú einfalda staðreynd að Ísland væri eins og eitt heimili það þyrfti að fá inn að minnsta kosti jafn miklar tekjur og það eyddi. Í gósentíð undanfarinna ára höfum við eytt um efni fram samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands þá keyptum við vörur fyrir 14,6 milljarða í janúar en seldum einungis fyrir 6,4 milljarða. Eftir stendur að við eyddum umfram það sem við öfluðum í vöruviðskiptum tæpum 7 milljörðum króna. Góðu fréttirnar eru þó þær að fyrir ári síðan eyddum við í janúar 10,1 milljarði meira á núgildandi verðlagi.

Við þessu er einungis tvennt að gera, eyða minnu eða selja meira. Miðað við hvernig við högum okkur er líklega augljóst að við þurfum að gera hvoru tveggja. Þá er spurning hvað getum við flutt út í auknum mæli til að fá meiri tekjur og hvað getum við sparað við okkur eða keypt innanlands til að laga vöruskiptajöfnuðinn.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Mánudagur 26. mars 2007

Björgunarþyrla verður á Akureyri

Það eru sannarlega gleðitíðindi að nú er nánast öruggt að björgunarþyrla verður staðsett á Akureyri. Það væri tiltölulega hallærislegt ef fyrsti maður á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi Alþingiskosningum væri ítrekað í fjölmiðlum að krefjast þess að fá björgunarþyrlu til Akureyrar væri ekki nú þegar búið að ganga frá málunum bak við tjöldin. Ég tel nánast alveg öruggt að á hentugum tíma fyrir kosningar muni ráðherra tilkynna að björgunarþyrla verði á Akureyri og frambjóðandinn hampa því að hann sé stórkostlegur björgunarþyrlusækir. Ráðherrar hafa breytt ráðuneytum landsins í kosningaskrifstofur og ég er algerlega sannfærð um að þyrlan kemur og allt leikritið verður vel útfært og snilldarlega spilað hjá Sjálfstæðismönnum.

Hvað svo sem um leikritið má segja þá er það virkilega ánægjulegt að hafa björgunarþyrlu hér á Akureyri, þar með verður ein þyrla staðsett þannig að það styttir verulega vegalengdir til björgunar á Norðausturlandi og miðunum hér fyrir utan. Þetta eru býsna góð tíðindi. En að sama skapi er frekar dapurlegt að sjá hvernig ráðherrar spila með völd sín í kosningabaráttu.

kl. |Pólitík || Álit (3)

Miðvikudagur 28. mars 2007

Ingibjörg Sólrún sterkur formaður

Formaður Samfylkingarinnar hefur orðið fyrir ótrúlegu einelti undanfarið þar sem sumir í einfeldni sinni trúa því að hún sé upphaf og endir alls í Samfylkingunni. Við eigum sterkan og góðan formann og öfluga liðsheild. Það er því lýjandi þegar andstæðingar beita þeim rökum að formaðurinn okkar sé að þeirra mati helsti ljóður á ráði Samfylkingarinnar. Undir hennar stjórn muni ríkisreksturinn fara illa o.s.frv. Í ljósi þess að við búum ekki við stöðugleika og óróleiki á fjármálamarkaði hefur sjaldan verið meiri þá er skrýtið þegar menn láta kasta ryki í augun á sér.

Ingibjörg Sólrún hefur sýnt að hún er sterkur forystumaður hún leiddi margar góðar breytingar í rekstri Reykjavíkurborgar og undir hennar stjórn blómstraði borgin með jafnrétti og velferð að leiðarljósi. Það eina sem gerði Reykjavíkurborg erfitt fyrir er nákvæmlega það sama og er að gera öllum sveitarfélögum erfitt fyrir en það er óréttlát skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga.

Hún var nútímalegur stjórnandi, óhrædd við kreddur samfélagsins. Hún gekk fremst í flokki á Gay pride hátíðinni þegar aðrir vildu helst ekki að samkynhneigðir mættu sjást. Hún sá til þess að konur voru til jafns við karla við stjórnun borgarinnar. Margt fleira mætti telja til.

Það væri því afar eftirsóknarvert að fá jafn reyndan og öflugan stjórnanda sem forsætisráðherra Íslands. Kona með þekkingu, reynslu með öfluga stjórnunarhæfileika er einmitt það sem við þurfum til að koma á meira jafnvægi á efnahagslífið á Íslandi.

Það verða eflaust einhverjir sem láta kasta ryki í augun á sér í kosningabaráttunni en hver sem skoðar málið sjálfur mun sjá hver raunveruleikinn er.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Föstudagur 30. mars 2007

Börnin eru framtíð okkar allra

Börnin eru framtíðin, okkar besta fjárfesting og það mikilvægasta sem landið á. Við Samfylkingarmenn setjum fram með stolti stefnu um málefni þeirra því við látum okkur börnin varða, þau skipta okkur máli. Stefnuskjalið Unga Ísland er metnaðarfullt plagg þar sem tekið er markvisst á málefnum barna út frá þeirra þörfum. Ég hef áður rætt hversu mikið fjölskyldur eru plagaðar af oft hömlulausum kröfum um vinnutíma. Börnin þurfa sínar fjölskyldur, þau þurfa vernd þegar bjátar á og styrk til að ná fram því besta sem þau hafa yfir að búa. Börnin okkar eru framtíðin, þau munu sjá um samfélagið sem við sem eldri erum þurfum á að halda síðar. Nú er það okkar hlutverk að veita þeim skjól til að dafna, veita þeim heilsugæslu til að stuðla að heilbrigði þeirra og veita þeim bestu menntun sem völ er á. Ég er sannfærð um að þessi stefna höfðar til fólksins í landinu sem veit í hjarta sér að börnin eru það mikilvægasta sem við eigum.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 31. mars 2007

Opnun kosningaskrifstofu

Í dag opnuðum við Samfylkingarmenn í Norðausturkjördæmi kosningaskrifstofu í Lárusarhúsi á Akureyri. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður okkar mætti og ávarpaði gesti ásamt Kristjáni L. Möller. Ég var fundarstjóri á skemmtilegum fundi sem hófst með tónlistaratriði frá þeim Unni Birnu og Eyþóri sem eru frábærir flytjendur. Það komu tæplega 80 manns á opnunina en nú höfum við einmitt endurnýjað heilmikið í Lárusarhúsi og því skemmtilegt að fá gesti. Við Helena erum búnar að vera duglegar að stilla upp eftir hörkuvinnu félaganna undir kröftugri stjórn Agnesar og Páls. Það verður gaman að vera í húsinu í kosningabaráttunni.

kl. |Pólitík || Álit (0)

Laugardagur 31. mars 2007

Lýðræði í Hafnarfirði

Í dag beittu íbúar Hafnarfjarðar íbúalýðræði, þátttaka í kosningum var mjög góð og niðurstaða er fengin. Ég er mjög ánægð með niðurstöðuna en fyrst og fremst er ég ánægð með vinnubrögð meirihlutans í Hafnarfirði þ.e. Samfylkingarinnar sem óhrædd lagði málið í dóm íbúa sveitarfélagsins.

Í þessu má sjá vinnu Samfylkingarinnar í verki, þar er hreinn meirihluti og því auðvelt að sjá hvernig Samfylkigin vinnur þegar hún fær til þess umboð.

Niðurstaðan er sérstaklega ánægjuleg í því ljósi að hún er í takt við stefnu Samfylkingarinnar um að nú sé kominn tími til að staldra við og skilgreina hvað við viljum vernda og hvað við viljum nýta. Núverandi ríkisstjórn hefur vaðið áfram í óþökk íbúa sinna í fjölmörgum málum og nú er mál að linni.

kl. |Pólitík || Álit (2)

Knúið af Movable Type 3.33
Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir lara[at]lara.is

www.flickr.com
Lára Stefánsdóttir
Brimnesvegur 24
625 Ólafsfjörður
Ísland / Iceland
GSM: +896 3357
Email: lara [at] lara.is


Áskrift að vefdagbók Áskrift að vefdagbók

©1992 - 2011 Lára Stefánsdóttir - Öll réttindi áskilin / All rights reserved.