Færslur í janúar 2007
« desember 2006 |
Forsíða
| febrúar 2007 »
Mánudagur 1. janúar 2007
Kæri lesandi ég óska þér og þeim sem þér þykir vænt um alls hins besta á árinu 2007 og þakka fyrir allt sem þú hefur verið mér. Hvort sem ég þekki þig eða ekki þá met ég mikils þegar menn lesa síðuna mína og ekki síður þegar þeir skilja eftir smá athugasemdir.
Ég hlakka til ársins 2007 með sínum ævintýrum, ljósmyndaferðum, tónlist og pólitík. Ekki síst því að á þessu ári verð ég 50 ára eða L-ára því 50 er jú L í rómverskum tölum;-) Aldrei hefði ég trúað því ungmær fyrir áratugum að núna - akkúrat núna - sé skemmtilegasti tíminn í lífinu. Aldrei hef ég verið að gera eins mikið af því sem mig langar til sjálfa og ég nýt þess í tætlur.
Árið verður frábært nú er bara að bretta upp ermar og sjá til þess að það standist;-)
kl. 01:57|
||
Þriðjudagur 2. janúar 2007
Það er nauðsynlegt að strengja áramótaheit, það besta sem ég hef strengt hingað til var áramótin sem ég ákvað að ég hefði ekki lengur vandamál. Lífið hefur verið miklu skemmtilegra síðan. Fyrir utan það hef ég strengt heit um að auka lífshamingju, grennast, gera eitthvað sniðugt og oftast nær stend ég við það og það virkar ágætlega. Stundum hef ég ekki neitt og það er ágætt líka. En núna er ég sumsé með áramótaheiti - ég ætla að skrifa á bloggið mitt daglega þetta ár. Ég ætla ekki að lofa því að það verði alltaf óskaplega gáfulegt en ég ætla að skrifa. Skerpa sjálfsagann og einnig þjálfa mig upp í að skrifa. Sumir gætu nú sagt að þetta sé býsna sjálfmiðað (ég heyrði að þú sagðir það Pálmi!) en hver segir að ég þurfi að skrifa um mig. Það má skrifa um ljósmyndun, pólitík, skálda sögu, búa til ljóð eða bara blaðra. Svo er allt í lagi að vera sjálfmiðaður á stundum. Ég þarf hinsvegar ekkert að skrifa um mig í dag því Fréttablaðið gerir það. Svo nú er bara að sjá til hvernig gengur.
kl. 22:07|
||
Miðvikudagur 3. janúar 2007
Ég er ein þeirra fjölmörgu sem vinn þannig að ég flýg milli Akureyrar og Reykjavíkur nánast einu sinni í viku. Vakna uppúr sex, komin út á flugvöll ríflega sjö og í vinnuna í Reykjavík fyrir níu. Ég bý yfir þeirri náðargáfu að geta steinsofið í flugvélum svo ég kem venjulega úthvíld á áfangastað. Þegar ég kom inn á flugvöllinn í Reykjavík særði það augun enn einu sinni hversu illa er búið að flugfarþegum, húsið allt of lítið, aðstaða slæm og hrörlegt umhverfi. Ég man eftir að Rúnar Guðbjartsson fyrrum flugmaður og nú ráðgjafi flughræddra stakk upp á því að gera Perluna að flugstöð og ferja farþega með einföldum hætti að flughlaði. Þetta er ein albesta hugmyndin sem ég hef heyrt það væri sannarlega töluvert glæsilegri staða en nú er.
Ég tek venjulega Bílaleigubíl hjá Höldur - Bílaleiga en þjónusta þeirra á Reykjavíkurflugvelli er einstök, alltaf vel á móti manni tekið grútsyfjuðum úr flugvélinni, samningurinn á borðinu og bíllinn stundum heitur og skafinn.
Nú er nánast heiður himinn í Reykjavík, tunglið fullt - lífið er alltaf töluvert betra þegar tunglið er fullt - og ég ætla að fara í ljósmynda með Helgu Waage frænku minni og ég er viss um að það verður kátt á hjalla hjá okkur vinkonunum.
kl. 16:33|
||
Fimmtudagur 4. janúar 2007
Ég fór í gærkvöldi ásamt Helgu Waage frænku minni og vinkonu í Krýsuvík að mynda, aftur komu þessi fallegu norðurljós og ég náði heilmörgum góðum ljósmyndum. Næturmyndataka er dálítið merkilegt fyrirbæri sem ég vissi ekki um fyrr en ég fór að auka ljósmyndaáhugann gríðarlega. Þetta gengur út á að fara út í myrkrið (já alvöru myrkur) og taka ljósmyndir á mislöngum tíma. Yfirleitt er skítakuldi því á sumrin er jú ekkert myrkur og því er lífsnauðsynlegt að taka með sér kakó og ekki verra að hafa mjólkurkex. Þannig var í gærkvöldi í Krýsuvík en á móti kom að það var fullt tungl og því ótrúlega bjart. Það fór þó um mig þegar ég sá þrjár rútur af túrhestum ráfa um hraunið á leiðinni til baka og taka myndir af norðurljósum - með flassi!!!
Continue reading "Norðurljós og næturmyndir" »
kl. 21:51|
||
Föstudagur 5. janúar 2007
Dagurinn hefur farið í að ganga frá stundaskrá vorannarinnar hjá Tölvuskólanum Þekkingu þar sem ég vinn. Endilega dáist að nýja vefnum okkar nokkuð flottur ekki satt? Annars er stundatöflugerð alltaf flókin, hver getur kennt hvenær og hvað. Hinsvegar hefur þetta gengið býsna vel og ég hef fengið mjög góða kennara í lið með okkur. Svo það verður margt spennandi á seyði og ég ætla mér að reyna að komast á námskeið í Flash sem mig hefur lengi langað til. Svo fæ ég að kenna um stafrænar myndavélar sem er virkilega gaman sameinar áhugamálið og vinnuna;-) Um leið og ég er að stússast þetta hafa fyrstu nemendurnir verið í námi fyrst í Tölvu- og skrifstofunáminu í morgun, síðan í MCDST Microsoft námi eftir hádegið og núna í kvöld MCSA Microsoft nemendur. Þau eru öll svo skemmtileg og gaman að vera með þeim. Símenntun allt lífið er mikilvæg og mér finnst sérstaklega gefandi að starfa við að auka námsframboð fólksins hér á Akureyri og nágrannasveitarfélögum. Þar sem skólinn starfar á báðum stöðum get ég haft framboðið mjög fjölbreytt hér þar sem námsefni er til og þekking á hvað er kennt. Virkilega gaman.
Nú er hinsvegar tími kominn til að hætta að vera framkvæmdastjóri og fara og spila Brús hjá Hildu Torfadóttur. Árlegur viðburður sem er ægilega skemmtilegur;-) Hilda er með eindæmum félagslynd kona og hefur svo sannarlega hresst upp á mitt félagslíf þegar við förum í bíó eða á listsýningar. Svo kvöldið verður flott;-)
kl. 20:27|
||
Laugardagur 6. janúar 2007
Það var virkilega gaman á vikulegu opnu húsi hjá Samfylkingunni í morgun, margir mættu þar að venju. Hinsvegar var ég stutt því ég vildi fara til Hríseyjar en þar átti að taka fyrstu skóflustunguna að fjölnota íþróttahúsi í eynni. Ferjan var nánast full, tunglið nánast fullt á himni og litbrigði loftsins frábær. Ég tók heilmikið af myndum sem ég hlakka til að vinna úr.
Continue reading "Fjölnota íþróttahús í Hrísey" »
kl. 14:31|
||
Sunnudagur 7. janúar 2007
Ég fékk skelfingarhroll þegar ég las grein í Fréttablaðinu í gær um að ótryggt netsamband kostaði okkur sjö milljarða. Ég hef áhyggjur af því að margir skilji ekki hvað "ótryggt netsamband" þýðir. Þar sem gríðarlega mörg íslensk fyrirtæki flytja út vörur og þjónustu um Netið má líkja þessu við að senda skip eða flugvél af stað með farm en vera óviss um hvort hann nái á áfangastað. Sá sem selur t.d. fisk veit vel að hann þarf að standa við gerða samninga við kaupendur og sá sem selur hugbúnað eða aðra þjónustu um netið getur ekki unnið frá Íslandi geti hann ekki vegna ótryggs sambands skilað sinni vöru eða þjónustu á réttum tíma. Síðan eru aðrir þættir sem tengjast samskiptum, t.d. skoðun á vefsíðum sem kynna vörur, þær þurfa þá að vera staðsettar annarsstaðar í veröldinni, og svo framvegis. Við erum vel menntuð þjóð sem hefur haslað sér völl í þeirri atvinnugrein sem kallast upplýsingatækni og það er skelfilegt ef við síðan hrekjum okkar fólk úr landi með ótryggu sambandi eða slöku starfsumhverfi. Hér þarf að bregðast hratt við og horfa fram í tímann, samgöngur um Netið þurfa að vera jafn öruggar og samgöngur á sjó og landi.
kl. 10:38|
||
Mánudagur 8. janúar 2007
Þá er helgin búin sem var reynar mjög viðburðarík. Ég mætti á nýársdansleik Tónlistarfélagins okkar í alflottasta kjól sem ég hef átt. Hef alltaf langað í glæsikjól með skjörti en eiginlega ekki fundið út hvar væri hægt að nota hann. Ég náði í slíkan kjól í Prinsessunni í Mjóddinni og bjó mig upp og menn dáðust að mér í fína kjólnum sem var býsna gaman. En það kárna gamanið þegar kom að dansinum sjálfum því háhælaðir gullskór bættu nú ekki vínardansinn hjá mér sem var býsna lélegur fyrir. Ég var hreinlega eins og nashyrningur og hékk mér til bjargar á hverjum dansherranum á fætur öðrum sem greinilega skrifaði í minnið að muna eftir að bjóða mér ekki upp að ári. Þeir sem buðu mér upp í fyrra vöruðust þetta sumir - en ekki allir. Mér þótti hinsvegar ofboðslega gaman;-)
Síðan skaust ég suður í gær þar sem Fífa systir hafði ákveðið að skíra sig í Hvítasunnusöfnuðinn og þá mætir maður auðvitað. Það er nú meira hvað messur þess safnaðar eru fjörmeiri en messurnar hjá þjóðkirkjunni. Hvernig er það hættu menn alveg að reyna að poppa þær messur upp? Allir textar með lögum eða sálmum á breiðtjaldi svo allir geta sungið með, tekið upp á tvær vídeótökuvélar og sjálfsagt sýnt á Omega sjónvarpsstöðinni - ég bara veit það ekki. En allavega virðist mikið að gerast í kringum þessan söfnuð. Vonandi líður henni vel þar og söfnuðurinn reynist henni vel.
Ég náði auðvitað að mynda líka bæði í fluginu og aðeins í Reykjavík, þarf endilega að komast í að vinna úr því en það er bæjarmálafundur hjá Samfylkingunni í kvöld svo ég veit ekki hvort það næst en það koma nýir dagar og meiri tími;-)
kl. 18:51|
||
Þriðjudagur 9. janúar 2007
Nýráðinn bæjarstjóri í Árborg Ragnheiður Hergeirsdóttir Samfylkingarmaður sýndi virkilega hvað í henni býr þegar hún gerir öllu hagkvæmari ráðningarsamning við sveitarfélagið sitt heldur en Sjálfstæðismaðurinn sem áður sat. Græðgin sem hefur verið talin með dauðasyndunum hefur að því er mér virðist nánast verið talin dyggð í seinni tíð. Það sem menn geta náð til sín það taka þeir og sumir þiggja biðlaun þó þeir séu áfram í vinnu - bara af því þeir geta það - aðrir hirða til sín stuðning sem þeir þurfa ekki á að halda. Það er því gleðiefni að sjá að sumir eru yfir þetta hafnir og ég er stolt af Ragnheiði flokkssystur minni af þessu tilefni.
kl. 22:47|
||
Miðvikudagur 10. janúar 2007
Í morgun fór ég upp í Hlíðarfjall til að sjá hvort ég kæmi auga á halastjörnuna McNaught, himininn var skýjaður svo hana var hvergi að sjá en þá sá ég allar snjógerðarvélarnar í fullum gangi. Það var nánast logn og -5c og þær möluðu kappsfullar og spýttu snjó út í skíðabrekkurnar. Ég hitti Guðmund forstöðumann sem var feykilega ánægður með árangurinn og sagði að þetta skipti sköpum fyrir rekstur fjallsins. Skíðabrekkurnar í Hlíðarfjalli eru nú eins og þær gerast albestar og við getum verið stolt af þeim. Smástund datt mér í hug að ég gæti haft áhuga á að fara á skíði en mundi svo að skíði og ég erum sjaldnast sammála hvert á að fara. Það breytir þó ekki því að fyrir ferðamennsku, fjölskyldur og íþróttamenn er aðstaðan í Hlíðarfjalli afbragð og mikilvæg okkur öllum.
kl. 19:30|
||
Fimmtudagur 11. janúar 2007
Ég var mjög ánægð með fund Samfylkingarinnar í gærkvöldi undir nafninu "Ein þjóð í einu landi - jöfn tækifæri". Sérstaklega vegna þess að mér fannst málflutningurinn nútímalegur, ekki svo að skilja að maður sé nú ekki alla jafna jákvæður þegar eigin flokkur er að halda fundi en þetta var sérstaklega ánægjulegt. Mín helstu baráttumál þ.e. jafnt aðgengi að háhraðaneti sem gerir okkur kleift að vinna hvaðan sem er hvert sem er fjölmörg störf ásamt stefnu flokksins um að sjá til þess að störf séu auglýst án staðsetningar eru einmitt mál sem ég tel skipta okkur landsbyggðarmenn miklu máli. Þetta eru mál sem við setjum á oddinn og eru sérstaklega tekin fyrir þegar rætt er um jöfnuð. Ég var því mjög ánægð með formanninn minn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í gærkvöldi.
Um daginn fórum við í heimsókn í Brim og tók ég nokkrar myndir þar sem má sjá á myndasíðunni minni. Það var fróðleg ferð og starfsemin greinilega viðamikil og spennandi.
kl. 16:58|
||
Föstudagur 12. janúar 2007
Áætluð uppsetning á spilakössum í Mjóddinni hefur vakið talsverða umræðu upp á síðkastið og umræða um fjárhættuspil fylgt í kjölfarið. Auðvitað er það tvískinnungur hjá íslenskri þjóð að banna fólki að spila með peninga nema það sé til styrktar einhverju tilteknu málefni. Þessi málefni eru: Meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga (SÁÁ), háskólamenntun (HHÍ) og gróskumikils hjálparstarfs Rauða krossins. Með öðrum orðum þá má stunda fjárhættuspil ef hægt er að skilgreina að ágóðinn sé til góðs. Þegar ég hef hlustað á fréttir undanfarinna daga rifjaði ég upp hversu undrandi mamma var þegar hún kom af námskeiði í Bandaríkjunum um fíkn um hversu gríðarlegur vandi spilafíkn væri og engu minna en vímufíknir. Ég er dálítill spilafíkill held ég því ég á happdrættismiða og spila í lottó. Sannfæri mig um að ég sé að styrkja gott málefni þegar ég er í rauninni að setja netta spennu í lífið við að renna yfir vinningaskrárnar í dagblöðunum. En hinsvegar lifi ég tiltölulega góðu lífi og þetta setur ekki fjárhaginn á annan endann. Kannski er ég hófsamur spilaneytandi eins og hófsamur vínneytandi. En þá kemur að þeirri spurningu hvort yfirhöfuð eigi að vera að banna fjárhættuspil í landinu ef það má spila fjárhættuspil samt sem áður - bara ef einhver góður græðir á því. Þá eru lögin farin að vera hálf kjánaleg.
Continue reading "Fjárhættuspil eða leikur?" »
kl. 22:47|
||
Laugardagur 13. janúar 2007
Þó auðvitað séu bændur hluti þeirra sem framleiða matvöru þá skýtur það dálítið skökku við í mínum huga að beina spjótum fyrst og fremst að þeim eins og sumir virðast gera. Matvöruverð á Íslandi kristallast ekki í einni stétt manna. Ég skil til dæmis ekki hvers vegna aðföng í landbúnaðarframleiðslu séu ekki viðfangsefni í ríkari mæli. Matvöruverð má einmitt lækka séu þau lækkuð. Eru grænmetisbændur að fá rafmagnið á sama verði og álverin? Er rafmagn á sambærilegu verði til þeirra og gerist í þeim löndum sem er verið að miða? Er verið að skattleggja fóður þannig að matvöruverð er hærra en við viljum hafa það? Hvað með lyf, hreinlætisvörur eða annað það sem bændur þurfa til þess að útbúa matvöruna? Ég vil að við séum fyrst og fremst sjálfum okkur nóg í framleiðslu á ákveðnum grunnþörfum í matvöru. Við erum hvað sem tautar og raular eyja norður í hafi og það er ýmislegt sem getur komið uppá sem leiðir til þess að við verðum að fóðra okkur alfarið sjálf.
Continue reading "Bændur, verðlag og neytendur" »
kl. 15:17|
||
Sunnudagur 14. janúar 2007
Mér finnst hlátur stjórnmálamanna vera talsvert meira umræðuefni en önnur svipbrigði eða viðbrögð. Í Morgunblaðinu í dag þar sem Agnes Bragadóttir tekur kraftmikið viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu og "grillar" hana dálítið þá segir hún m.a. "Hér hlær Ingibjörg Sólrún dátt, kannski líkt og þegar hún skellihló í Kryddsíldinni, eftir að Guðjón A. Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins, brýndi raust sína í hennar garð og nánast hvæsti "Slappaðu af!". Ég áttaði mig ekki á að sá hlátur væri svo minnisstæður að til hans væri vitnað, er það raunin?
Continue reading "Hlátur stjórnmálamanna" »
kl. 17:43|
||
Mánudagur 15. janúar 2007
Ég varð afar hissa þegar ég heyrði orð gamla bæjarstjórans á Akureyri þar sem hann ræðst að formanni íþróttafélagsins Þórs með ásökun um fjárkúgun. Það er afar stutt síðan ég sat súpufund hjá Þór þar sem félagið sýndi velvild sína með því að færa honum blómvönd og þakka samstarfið. En gamli bæjarstjórinn þolir ekki að við sér sé blakað og ólmast upp völlinn með ásökunum og geðillsku. Nú verður að viðurkennast að íþróttafélagið Þór hefur unnið gríðarlega öflugt starf í bænum og því óskiljanlegt að biðlaunamaðurinn Kristján hafi ekkert þarfara að gera en að vera með skítkast við þá. Það er ljóst að hann hafði lítið samstarf við íþróttafélögin í bænum um væntanlegt Landsmót í síðasta meirihluta og tel ég að íþróttaáhugamenn í bænum hljóta að skilja við gamla bæjarstjórann minnugir hans síðustu orða í þeirra garð. Verður kosningabarátta hans með þessum hætti?
kl. 22:20|
||
Þriðjudagur 16. janúar 2007
Ég er alltaf gríðarlega hissa þegar Alþingi Íslendinga lætur fundi ganga svo fram úr hömlu að vafasamt er að vökulög haldi. Ég hélt að þau lög væru sett til verndar fólki þar sem ekki má ganga of nærri þeim og síðast þegar ég vissi voru Alþingismenn fólk. Bjánaleg karlmennskuímynd frá fornöld að menn séu svo óskaplega duglegir þegar þeir vinna voðalega lengi er auðvitað löngu úrelt. Stjórnarflokkarnir halda þinginu í gíslingu og þjösnast áfram og vilja ekki semja við einn né neinn. Ég verð að segja að ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn er haldinn gríðarlegum vilja við hlutafélagavæðingu í hvaða mynd sem er en ég held að Framsóknarflokkurinn sé ekki að vinna fyrir sitt fólk í þessum þjösnagangi. Dagný Jónsdóttir alþingismaður hefur bent á hirðuleysisleg vinnubrögð menntamálaráðherra og það virðist sem þetta mál eigi að ganga áfram í ósátt við landsmenn og þingið. Er fólk virkilega ekki þreytt á því hvernig ríkisstjórnin hamast áfram í þessum stöðuga þjösnagangi án þess að nenna að vinna heimavinnuna sína?
kl. 21:15|
||
Miðvikudagur 17. janúar 2007
Samkvæmt rómverskum tölum þá er L = 50 og þar af leiðandi verð ég L-ára í ár. Aldrei skemmtilegra að lifa og aldrei eins margt að gerast. Ekki hefði ég trúað því þegar ég var ung og fögur. Gamlir vinir mínir komu mér á óvart og ákváðu að í tilefni afmælisins yrði gefin út ljósmyndabók af þessu tilefni. Þetta er auðvitað bjarnargreiði því ég þarf að vinna allar myndirnar í bókina. Hinsvegar finnst mér dálítið spennandi að það verður s.k. Tabula Gratulatoria þar sem þeir sem vilja heiðra mig með því að skrá sig í bókina - en listinn verður prentaður þar - og jafnvel líka kaupa eintak af bókinni geta gert það. Ég hef ekki hugmynd um hverjir verða þar og er eiginlega meira spennt yfir því en bókinni enda er hún talsverð vinna núna, maður er alltaf fegin slíku - eftirá. Ef einhver hefur áhuga á að vera með sem mitt fólk hefur ekki haft samband við þá er hægt að hafa samband við Jóhönnu Leopoldsdóttur johannal@aknet.is og koma sér á blað. Ég veit ekki hverja þau þekkja af þeim sem ég þekki;-) En það þarf að klára að setja bókina fyrir 1. febrúar svo þetta er allt að smella saman;-) Verður gaman að sjá hvernig gengur en María Jónsdóttir hannar kápuna og hún er mjög flott! Þetta er spennandi verkefni;-)
kl. 22:27|
||
Fimmtudagur 18. janúar 2007
Byggðastefna Samfylkingarinnar er mjög áhugaverð og þá sérstaklega áherslan á störf án staðsetningar sem ég hef skrifað um hérna áður. Mér finnst þó oft eins og að fólk eigi erfitt með að skilja hvernig sú vinna á sér stað. Þar sem ég hef unnið meira og minna þannig í talsvert langan tíma eða frá árinu 1990 þá sé ég alltaf betur og betur hvað margt er mögulegt að vinna án þess að vera fastur á einum stað. Vandinn við það er hinsvegar oft huglægur og fólk á erfitt með að skilja að samstarfsfólk sem er ekki í augsýn er hluti af þeirra vinnustað. Einnig eru menn auðvitað misjafnlega í stakk búnir til að nota tölvur og þá tækni sem þarf en þó má telja að flestum sé hún að nokkru leikin allavega nægilega til að hefja störf. Síðan má ekki vanmeta símenntun allt lífið sem hefur auðvitað gríðarleg áhrif á hvað stendur til boða í lífinu. Maður getur alltaf sveigt lífsleiðina og farið að vinna við annað. Því held ég að það sé mikilvægt fyrir alla, sveitarfélög og einstaklinga, að huga vel að því hvernig hægt er að undirbúa það að það verða til fjölmörg störf án staðsetningar þegar Samfylkingin kemst til valda.
kl. 20:08|
||
Föstudagur 19. janúar 2007
Ég hef hitt margan nemandann sem er að stíga sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Bæði þá sem sækja hann frá heimili sínu og þá sem hleypa heimdraganum og sækja skóla í öðru bygðarlagi. Staða þeirra var gríðarlega misjöfn, sá sem fór heim að vinnudegi loknum í skólanum var oft rólegri í nýja skólanum á meðan sá sem kom lengra að var óöruggari enda allt nýtt. Í höfuðborginni er engin heimavist eða húsnæði ætlað framhaldsskólanemendum eða stuðningur við þá sem eru langt að komnir. Því reiddi þeim misjafnlega af og margir fóru heim aftur vegna þess að þeim leið illa en ekki að þeir vildu ekki læra meira. Á Akureyri er þó heimavist og þar hafa nemendur ákveðið öryggi í umhverfi sínu ef þeir kjósa. En þetta kostar þau heilmikið og aðstöðumunur foreldra í þéttbýli þar sem er framhaldsskóli og hinna er gríðarlegur. En þetta er ekki einungis fjárhagslegt dæmi heldur einnig skiptir oft sköpum um gengi nemanda í skóla hvort fjölskyldan getur stutt við bakið á þeim. Ég er því stolt af stefnu Samfylkingarinnar að nemandi eigi ekki að þurfa að ferðast lengri veg en 45 mínútur í framhaldsskóla eða í allra fámennustu byggðunum að geta stundað fjarnám að heiman. Þetta er mikilvægt fyrir ungmennin okkar og fjölskyldur þeirra.
kl. 23:17|
||
Laugardagur 20. janúar 2007
Undanfarið hef ég hlustað á hina og þessa býsnast yfir þeirri hneisu að þingkonur okkar hafi verið með slæður í Sádi-Arabíu fyrir utan það að þangað hefði aldrei átt að fara þar sem stjórnarfar sé ólýðræðislegt. Ekki ætla ég að mæla bót stjórnarfari í því landi en mér finnst það afspyrnusnjallt að senda kvennasveit af alþingi og forseta þingsins sem er líka kona, nákvæmlega til Sádi-Arabíu. Ég veit ekki hvort það er algengt að nefndir sem fara í erlendar heimsóknir séu bara skipaðar konum en það er einmitt ástæða til að gera það þegar í hlut eiga lönd þar sem staða kvenna stendur afar höllum fæti. Slæðurnar í þessu samhengi eru aukaatriði að mínu mati þó sumir geri þær að aðalatriði. Ef glöggt eru skoðaðar myndir úr ferðinni má heldur ekki gleyma að karlarnir á myndunum voru líka með baðmullarslæður með reipi um höfuðið.
Continue reading "Með slæðu í útlöndum" »
kl. 22:24|
||
Sunnudagur 21. janúar 2007
Framboðslistinn okkar Samfylkingarmanna í Norðausturkjördæmi var kynntur í gær, þar eru margir frá því síðast en einnig mörg ný andlit. Það verður virkilega gaman að vinna með öllu þessu fólki í kosningunum í vor. Mestu munar um að fá Margréti Kristínu Helgadóttur í 4. sætið því hún er einnig frá Akureyri þar sem vinnan verður gríðarlega mikil. Margrét er þaulvön kosningabaráttu þar sem hún skipaði 5. sætið í sveitarstjórnarkosningunum s.l. vor og hefur verið mjög virk í starfi Samfylkingarinnar á Akureyri. Við höfum einnig unnið talsvert saman sem kemur okkur til góða núna. Við stöllur eru síðan að fara til Reykjavíkur á eftir til að hitta aðrar konur Samfylkingarinnar sem líka eru ofarlega á listum og það verður dýrmætt veganesti í baráttuna.
kl. 12:56|
||
Mánudagur 22. janúar 2007
Mér hefur fundist umræðan um evrur sem Ingibjörg Sólrún hóf um daginn einkar athyglisverð. Hún hefur vakið upp margar spurningar og umræður sem eru mjög þarfar miðað við þær aðstæður sem við búum við í samfélaginu. Ingibjörg Sólrún bendir á að með því að vinna að þeim markmiðum í efnahagsmálum sem gerði okkur kleift að taka upp þessa mynt þá myndi stjórnin hér heima batna mjög til muna. Á sama tíma er henni sem okkur öllum ljóst að evra verður ekki tekin upp án Evrópusambandsaðildar en markmiðið er skýrt í landsfjármálunum. Ábendingar um afborganir húsnæðislána annars vegar í evrum og hinsvegar í krónum voru afar sláandi og hef ég hitt marga sem vilja ræða þetta. Það hlýtur að vera skelfileg staðreynd að betra sé að taka evrulán í óðaverðbólgu en krónulán í einhverju áætluðu regluástandi. Menn geta svosem stungið höfði sínu í sand og sagt að það sé bara ekki svoleiðis, en þessir útreikningar þá - eru þeir bara bull?
kl. 22:28|
||
Þriðjudagur 23. janúar 2007
Ég var að velta því fyrir mér í dag hversu sorglegt það er að við Íslendingar eigum ekki fleiri iðnaðarmenn og að virðing fyrir þeim væri alls ekki næg. Menn telja merkilegra að börnin þeirra ljúki bóknámi en iðnmenntun og sífellt verður meiri og meiri hörgull á iðnaðarmönnum. Fátt er mikilvægara einni þjóð en vel menntaðir iðnaðarmenn, hagleiksmenn á ýmsum sviðum sem eru stoðir fjölmargra starfsgreina, heimilisins og umhverfisins. Fyrir vikið eru þeir sem þó mennta sig á þessu sviði svo ásetnir að það er ekki mögulegt fyrir þá að komast yfir þau verkefni sem liggja fyrir í landinu. Hver þekkir ekki þann vanda að fá iðnaðarmann til starfa á heimili sínu? Ég reyndi að fá rafvirkja fyrir tveimur árum það hefur ekki enn gengið, dúklagningarmenn fyrir fjórum árum og þeir hafa ekki enn sést, garðyrkjumenn fyrir tveimur og aftur einu ári sem enn hafa ekki komist í verkin og það hvarflar ekki að mér að ég fái nýja eldhúsinnréttingu eða nýjan inngang í húsið mitt nema reyna að sannfæra Gísla minn um að hann sé smiður - sem hann er ekki. Iðnmenntun nýtur ekki nægrar virðingar, menntamöguleikarnir oft litlir eða ekki góðir og skilningur á fagmenntun allt of lítill. Hér þurfum við virkilega að vera raunsæ og skilja hvað við þurfum til að halda einu landi gangandi. Berjumst fyrir öflugri iðnmenntun og virðingu fyrir iðnaðarmönnum.
kl. 22:38|
||
Miðvikudagur 24. janúar 2007
Hafnfirðingar búa við meira lýðræði en flestir aðrir þegnar þessa lands, þeir geta kosið um skipulagstillögu sem sker úr um hvort stækkun verður á álveri í túngarðinum hjá þeim. Verði af þeirri stækkun má telja víst að ekki verði um frekari álversframkvæmdir í landinu þar sem kvótinn okkar skv. Kyoto bókuninni er þá uppurinn.
Á höfuðborgarsvæðinu vantar ekki innspýtingu í atvinnulífið og því væri skynsamlegra að nýta þá losun sem okkur er heimil annarsstaðar þar sem það hefur meiri áhrif á samfélagið eins og t.d. á Húsavík þar sem líklegt má telja að hægt sé að afla orku á umhverfisvænan hátt og það myndi skipta sköpum fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni. Sú orka sem nú er nýtt í iðnaði og stóriðju er nánast alfarið notuð á höfuðborgarsvæðinu þó brátt muni það breytast með væntanlegu álveri í Reyðarfirði. Því er ekki óskiljanlegt þegar íbúar landsbyggðarinnar eru að tala um að landsbyggðin sé nýtt eins og nýlenda þar sem teknar eru auðlindir og nýttar af svæðum sem búa við betri kjör.
Í Hafnarfirði er lýðræði og þar er Samfylkingin í meirihluta í góðu samstarfi við sitt umhverfi sem er til stakrar fyrirmyndar.
kl. 19:50|
||
Fimmtudagur 25. janúar 2007
Ég las í morgun um neyslubindindi sem fólk í henni Ameríku hafði farið í. Það kaupir ekkert nema nauðsynjar s.s. mat og þau föt sem nauðsynlegt er að eiga. Nú er áreiðanlega afstætt hvernig fólk skilgreinir nauðsynjar sínar en þetta vakti mig til umhugsunar. Ég kaupi ónauðsynlega hluti og fyrir vikið á ég stundum ekki fyrir því sem mig langar að gera - sem svo gæti líka verið ónauðsynlegt. Einhverra hluta vegna erum við Íslendingar ekki alveg nógu meðvitaðir neytendur og ég þar með talin þó ég sé félagi í Neytendasamtökunum þá er það ekki nóg.
kl. 09:15|
||
Föstudagur 26. janúar 2007
Í Vikudegi þann 25. janúar s.l. kemur fram að ungt fólk á Akureyri hyggur frekar á iðnnám en Reykvíkingar og meðalungmennið í landinu. Þetta eru góð tíðindi þar sem ég tel einna brýnast fyrir okkur að efla iðnmenntun í landinu. Gott er að vita til þess að sú langa hefð iðna sem hefur verið hér í bænum endurspeglast í framtíðarsýn ungmennanna. En á sama tíma er afar brýnt að menntayfirvöld sjái til þess að þetta unga fólk geti lokið sínu iðnnámi heima fyrir en þurfi ekki að ljúka því í skóla á höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að efla valmöguleika nemenda á að stunda enn fleiri iðngreinar hér. Sú hugmynd að búa til kjarnaskóla í iðngreinum á höfuðborgarsvæðinu er ekki skynsamleg að mínu mati, það má setja ákveðinn rándýran sérbúnað á e.k. kjarnastað og senda nemendur á tímabundin námskeið en að hafa nánast allt námið í heimabyggð. Þurfi nemandi á tímabundið námskeið þarf einnig að sjá til þess að hann hafi húsnæði á viðráðanlegu verði.
Við vitum öll að nemendur af landsbyggðinni hafa ekki jöfn skilyrði, húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu er rándýr og nauðsynlegt að tryggja að nemendur geti lokið því iðnnámi sem hugur þeirra stendur til. Vetrardvöl í Reykjavík er ekki gefins og því er menntamálaráðuneytið í rauninni að velta ákveðnum kostnaði yfir á iðnnema með því að gera þeim ekki kleift að ljúka námi þar sem þeir hefja það í ákveðnum iðngreinum.
kl. 23:08|
||
Laugardagur 27. janúar 2007
Ég hef undrast það undanfarnar vikur hversu mjög kjaftaglaðir Sjálfstæðismenn eru um eiginlega allt nema eigin stjórnsýslu og flokk. Jafnvel svo að þeir eru áminntir í umræðuþáttum um að þeim hafi verið boðið til að ræða stefnu Sjálfstæðisflokkins en ekki hvað þeim finnst athugavert við aðra. Eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í ræðu sinni í dag þá erum við Samfylkingarmenn ekki neitt þagnarbandalag og þorum að ræða málin. Hvers vegna má til dæmis ekki ræða málefni Evrópusambandsins í alvöru? Við hvað eru menn hræddir? Að umræðan ein verði til þess að Ísland verður aðili að Evrópusambandinu? Við skiljum þjóðina eftir ómeðvitaða um kosti og galla með því að vera í þagnarbandalagi um hvaða þýðingu Evrópusambandsaðild hefur. Ég man eftir því þegar ég skoðaði bókasafn Öxarfjarðar á Snartastöðum við Kópasker hversu ég undraðist aldargamalt lesefni um samfélagsmál á ótrúlegustu tungumálum. Hvað varðar Evrópusambandið þá óttast ég meira en allt annað hversu fáfróð við erum um hvað innganga í sambandið þýðir. Ég vildi þúsund sinnum frekar vera í sporum Norðmanna sem hafa lokið sinni heimavinnu, fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu og synjuðu aðild, en í sporum okkar Íslendingasem í rauninni ekkert vitum. Það er eins og þjóðinni sé haldið í einangrun með þagnarbandalagi um Evrópusambandið. Meðan svo er veit þjóðin ekki hvort hún vill eða vill ekki, umræðan snýr um hvort málið skuli rætt eða ekki.
Sigh, stundum finnst mér að við höfum farið svo langt aftur þrátt fyrir upplýsingatækniöldina að við vitum minna en nokkru sinni fyrr.
kl. 18:01|
||
Sunnudagur 28. janúar 2007
Í dag var góður dagur, fjölskyldan hittist í morgun eins og venjulega á sunnudögum og ég fékk að leika með barnabörnunum sem er mjög skemmtilegt. Ísabella Sól gaf mér sleikjó fyrir að vera dugleg að fara á postulínið alveg sjálf. Við Gísli skoðuðum síðan lagersölu Samkaupa í Blómavalshúsinu en þar er ótrúlega gott verð og margir geta þar gert góð kaup sérstaklega í barnafötum. Við fórum síðan á Listasafnið og skoðuðum virkilega skemmtilega og áhugaverða sýningu Jóns Óskars og Adam Bateman, veggfóðursverk Jóns Óskars voru gríðarlega flott en bókaverk Adams voru afar skemmtileg og sérstaklega myndband sem skapaði margar áhugaverðar pælingar. Þá fórum við á listaverkaútsölu sem Aðalsteinn Svanur Sigfússon var með á verkum sínum í Populus Tremula og ég festi kaup á afar skemmtilegu gulu verki eftir hann sem sjá má á þessari mynd. Svo vann ég heilmikið í bókinni minni en í kvöld fórum við í heimsókn til Matthíasar og Fjólu að Álfaklöpp þar sem var frábært að koma. Þetta var semsagt frábær sunnudagur.
kl. 23:36|
||
Mánudagur 29. janúar 2007
Það er erfitt á Frjálslynda flokknum í dag og ekki auðvelt að sjá hvernig þeir leysa þau mál sem við þeim blasa. Hver eru ágreiningsmálin? Fjalla þau um einstaklinga eða málefni. Allavega er það einstaklega klaufaleg stjórnsýsla að reka framkvæmdastjórann sinn stuttu fyrir kosningabaráttu og búa til ágreining með því innan flokksins. Ég held að formaðurinn, sem segist býsna lipur við að stýra skipum á sjó, sé e.t.v. ekki nægilega öflugur til að stýra stjórnmálaflokk. Það er mikilvægt að formaður styðji sitt fólk en það gerir hann ekki, hann gerir mannamun og ætlar ekki að styðja framkvæmdastjórann sinn en styður varaformanninn sinn. Þar með hlýtur óeining um hann sjálfan að aukast að miklum mun. Formaður verður að bera virðingu fyrir metnaði sinna flokksmanna og forðast að taka jafn afgerandi afstöðu og hann gerði í kosningu helgarinnar. Með þeirri afstöðu hefur hann aukið mjög á erfiðleika flokksins og er enganvegin í stakk búinn til að jafna ágreining eða stuðla að sátt í flokknum. Hann er búinn að skipa sér í lið og í þeirri stöðu er klofningur miklum mun líklegri en ella.
Það verður fróðlegt að sjá hvað Margrét Sverrisdóttir ákveður að gera í framhaldinu þar fer kröftugur stjórnmálamaður sem karlarnir eru ekki til í að hleypa nema til að vera "smekkleg" með blómum á borðum.
kl. 19:31|
||
Þriðjudagur 30. janúar 2007
Ég fór til Egilsstaða í gærkvöldi á fund með Ingibjörgu Sólrúnu og var fundurinn afar skemmtilegur. Sérstaklega var rætt mikið um menntamál sem er einmitt málaflokkur sem talsvert er ræddur á Akureyri. Þar kom fram að íbúum á Austurlandi er mjög farið að lengja eftir því að þar verði háskólamenntun efld og sérstaklega að þar væri ekki s.k. "seljastefna" þar sem skólar væru "sel" frá öðrum skólum. Heldur þyrfti að leggja áherslu á að um raunverulegan háskóla væri að ræða. Margt annað var rætt s.s. atvinnumál, sjávarútvegsmál, utanríkismál og fleira. Þetta var virkilega skemmtilegur fundur.
Síðan var ekið um nóttina til baka til Akureyrar þar sem náðust hreint ágætar norðurljósamyndir. Og hvað vill maður meira?
kl. 22:49|
||
Miðvikudagur 31. janúar 2007
Ég hef stundum verið spurð af hverju ég er í pólitík og hvernig ég "nenni þessu" eins og sumir orða það. Ég velti því fyrir mér vel og lengi, hvort ég væri snobbuð fyrir því að vera Alþingismaður, hvort þetta væri fjárhagsleg löngun eða hvað það væri. Ég hugsa að ef ég hefði komist að þeirri niðurstöðu að annaðhvort þessara tveggja væri ástæðan þá hefði ég hætt í pólitík. En ég komst að þeirri niðurstöðu að ég er í pólitík af því að fólk skiptir mig máli. Ég vil að fólk geti lifað með reisn sama í hvaða kringumstæðum það er, fólk geti látið drauma sína rætast á Íslandi og að við náum árangri. Það skiptir mig máli.
Alltaf er ég að sjá nýja vinkla frá þeim sjónarhól sem ég stend, til dæmis hentar mér ekki að peningar séu í miðdepli en að einhver geti unnið að því að eignast mikið af peningum af því það er áhugi fyrir því þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu. Hinsvegar tel ég að menn eigi að leggja til samfélagsins og láta það skipta sig máli að heildin, við Íslendingar allir séum fólk með sterka sjálfsmynd, áræði og dug en ekki bundin á klafa vegna fátæktar, heilsuleysis eða annars sem hægt er að breyta.
Þess vegna er ég í pólitík - og nenni henni;-)
kl. 14:16|
||