Færslur í febrúar 2007
« janúar 2007 |
Forsíða
| mars 2007 »
Fimmtudagur 1. febrúar 2007
Suma daga er einfaldlega talsvert að gera og dagurinn í dag var þannig. Ég fór fyrst á stórkostlegt námskeið um Mind manager hjá Elínu Þorsteinsdóttur frá Verkefnalausnum. Hún keyrði námskeiðið áfram af miklum krafti og sjaldan hefur tíminn nýst eins vel við það að fara á námskeið. MindManager er hreinlega stórkostlegt tól til svo margra hluta og ég náði alls ekki að fikta mig nóg þar í gegn. Ég er afar ánægð með samstarfið við þær stöllur hjá Verkefnalausnum og hlakka til að fá þær aftur norður.
Eftir hádegið datt ég inn í kennslu eldri borgara í forföllum kennarans og það var frábært, mikið sem nemendur voru áhugasamir og duglegir við oft óstýrilátar tölvurnar.
Þar á eftir kosningastjórnarfundur, grípa í sig samloku og kenna um stafrænar myndavélar til níu. Núna ætla ég á fund Ungra jafnaðarmanna sem hafa verið einstaklega duglegir að skipuleggja ungliðadag og fengu í lið með sér þingmenn kjördæmisins ásamt þingmönnunum Katrínu Júlíusdóttur, Björgvin G. Sigurðssyni og Ágústi Ólafi Ágústssyni varaformanni flokksins. Við erum ótrúlega lánsöm með ungliðana okkar, kraftmikið og duglegt fólk!
kl. 21:16|
||
Föstudagur 2. febrúar 2007
Í kvöld flaug ég suður til að fara á fund frambjóðenda Samfylkingarinnar í Kríunesi við Elliðavatn sem er ótrúlega flottur staður. Það er eins og maður sé allt í einu kominn til Mexíkó og staðurinn ótrúlega notalegur. Við Guðný Hrund sem er 4. maður á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi ákváðum að gista á þessum notalega stað. Hér er maður baðaður samstöðu, samhygð og kraftmiklu fólki sem er ótrúlega verðmætt í annasömu starfi í pólitík. Hér verðum við að vinna á morgun til undirbúnings kosningabaráttunnar sem ég hlakka heilmikið til. Það er fátt meira gefandi en að setjast niður með kraftmiklu fólki og velta fyrir sér hvernig megi bæta lífið og tilveruna.
kl. 22:11|
||
Laugardagur 3. febrúar 2007
Við vitum nú að ríkisstjórnin vissi af fjármálaóreiðu Byrgisins fyrir löngu en það var ekki talið ástæða til að skoða hvort óreiða væri á fleiri sviðum. Eins og ég hef skrifað um áður þá svíður mig mest að vita til þess að heilbrigðisþjónusta við sjúklinga sem voru á heimilinu var gríðarlega ábótavant. Hvernig hefur heilbrigðisráðherra brugðist við? Kemur þessi heilbrigðisþjónusta ekki við ráðherra Framsóknarflokksins sem hefur verið falið að tryggja góða heilbrigðisþjónustu í landinu. Hvers vegna fá sjúlkingar með fíknisjúkdóma ekki opinbera heilbrigðisþjónustu eins og aðrir sjúklingar?
Jóhanna Sigurðardóttir hefur bent á að ríkisstórnin vissi þetta fyrir fjórum árum eða árið 2002 og bregst við með því að auka fjármagn til fyrirtækisins. Það er ekki gott að skoða ekki mál sem þetta faglega og markvisst heldur ganga að hlutum í blindni eða með það í huga að skapa sér skammtímavinsældir eða draga að sér atkvæði.
kl. 12:10|
||
Sunnudagur 4. febrúar 2007
Nú er bókin okkar Gísla að verða tilbúin í prentun en allar frístundir undanfarið hafa farið í að ljúka mínu verki við bókina. Ég vann 42 myndir fyrir hana, hver mynd tileinkuð bekkjarfélaga frá Bifröst á árunum 1974-1976. Myndin tengist einstaklingunum á mismunandi hátt, e.t.v. vegna þess að eitthvað á myndinni minnir á einstaklinginn, áhrifin af myndinni minnir á eða eitthvað sem ég held að viðkomandi gæti haft gaman af. Gísli samdi síðan ljóðin 42 þannig að hver opna er tileinkuð hverjum.
Ég er búin að sjá próförk og þetta lítur afskaplega vel út, ljóð og ljósmyndir eiga vel saman og skapa held ég ákveðinn andblæ sem er skemmtilegur.
kl. 18:10|
||
Mánudagur 5. febrúar 2007
Í dag fór ég á kynningu um Norðurveg sem ætlunin er að leggja í einkaframkvæmd yfir Kjöl. Mér finnst þetta spennandi verkefni sem á sér margar hliðar. Ein er sú að stytta leiðina til höfuðborgarinnar frá Norðausturlandi til höfuðborgarinnar um 47 kílómetra. Hinsvegar er fleira í pakkanum. Með góðum vegi þessa leið þá verður talsvert betra aðgengi fyrir ferðamenn að Norðurlandi. Flestir fara að Gullfoss og Geysi en með nýjum og góðum vegi yfir Kjöl verður auðvelt að halda áfram að Demantshringnum, skoða Goðafoss, Mývatn, Dettifoss og Ásbyrgi. Þar með aukast möguleikar okkar til að njóta aukins ferðamannafjölda til landsins. Ennfremur verða samskipti við Suðurland öll önnur og vegurinn tengir saman landsbyggðina á öflugan hátt. Það er ágætt að fleiri vegir komi í einkaframkvæmd en bara Hvalfjarðargöngin og er það trú mín að menn fagni þessu framtaki og það nái að ganga hratt fram því ég efast um að opinberir aðilar leggi stein í götu þessa verkefnis.
kl. 23:41|
||
|
Þriðjudagur 6. febrúar 2007
Í mínum huga skiptir fátt meira máli í íslensku samfélagi en jöfnuður. Jöfnuður milli kynjanna, ríkra og fátækra, aldraðra og yngri, karla og kvenna, höfuðborgar og dreifbýlis, heilbrigðra og öryrkja eða sjúkra. Þetta hefur mér fundist einkenna hug Íslendinga til samfélagsins þeir vilja búa stoltir í landi þar sem þeir eru stoltir af löndum sínum - þó þeir séu ekki gríðarlega margir. Við erum stolt þjóð og lítum ekki á okkur sem eftirbáta annarra þó þeir búi í stærri löndum enda get ég ekki séð hvernig það geri mann merkilegri að hann búi í 10 milljón manna stórborg en norður á Melrakkasléttu. Mannvera er mannvera.
Þetta er grunnur þess að ég er í Samfylkingunni, það er flokkur jafnaðarmanna sem berjast fyrir jöfnuði í landinu. Við viljum ekki að landar okkar þurfi að þjást að óþörfu þegar við vitum að við höfum það mikið fé handa á milli að það er hægt að bjóða öllum Íslendingum upp á mannsæmandi líf.
Ég trúi því að jöfnuður í víðum skilningi sé það sem við þurfum fyrst og fremst að berjast fyrir.
kl. 22:48|
||
Fimmtudagur 8. febrúar 2007
Nokkur "einsmálsframboð" virðast vera að stinga upp kollinum. Þrátt fyrir að VG hafi verið ötulir í nokkur ár í umhverfismálum og nánast talið sig hafa einkaleyfi á málaflokknum þá vilja menn fleiri umhverfisstjórnmálaflokka. Sérstaklega eru hægri menn uppteknir af þessu viðhorfi. Á tíma þar sem umhverfismál eru á borðum allra stjórnmálaflokka, VG og Samfylkingin hafa gert skýra grein fyrir afstöðu sinni þá vilja menn enn fleiri flokka um sama málefni.
Nú má vel vera að það sé bestur árangurinn fólginn í því að stofna sérstakann stjórnmálaflokk um öll tiltekin mál eins og hefur verið rætt um aldraða, öryrkja, umhverfisverndarsinna, en einnig hafa menn rætt um sérstök framboð vegna ákveðinna samgangna, vegna landsbyggðarsjónarmiða og margs fleira.
Ég held að slagkraftur í málaflokkum gerist innan stjórnmálaflokkanna og ef eitthvað er þá séu þeir of margir á Íslandi fremur en of fáir. Stjórnmálaflokkur með fáa þingmenn getur í hæsta lagi einbeitt sér að fáum málaflokkum svo vel sé en spurning við hvað menn ætla að vera að vinna þegar rætt er um alla aðra málaflokka.
Ég er þeirrar skoðunar að það skipti máli að sameinast um grundvallarhugsjón eins og Samfylkingin hefur gert um jafnaðarmál og síðan sé annað byggt á þeirri sýn og unnið út frá henni.
Mörg sérframboð munu að öllum líkindum styrkja stjórnarflokkana til áframhaldandi stjórnarsetu og þá mun nú lítið þróast áfram í íslensku samfélagi sem farið er að búa við stöðnun í ýmsum málaflokkum.
kl. 11:12|
||
Föstudagur 9. febrúar 2007
Einbreiðar brýr auka töluvert slysahættu á þjóðvegum sérstaklega þjóðvegi eitt og fjölförnum leiðum. Með því að leggja ræsi eða smíða tvöfaldar brýr mætti auka öryggi á þjóðvegum til muna. Sem betur fer er verið að ráðast í lagfæringar í Norðurárdal í Skagafirði og unnið að lagfæringum víða annarsstaðar en skv. grein í Austurglugganum eru 239 einbreiðar brýr í Norðausturkjördæmi og þar af eru 83 á Fljótsdalshéraði.
Ljóst er að ræða þarf samgöngur á vegum og taka ábyrgð á þeim raunveruleika sem felst í því að vöruflutningar fara nú að mestu fram á landi. Þó vonandi strandsiglingar létti á vegunum þá stendur það eftir sem áður að umferð hefur aukist töluvert og því er álagið á tiltölulega mjóa vegi og einbreiðar brýr talsvert meira.
Skv. Austurglugganum urðu 122 slys við einbreiðar brýr á landinu öllu en einungis 2 á Fljótsdalshéraði. Gera má ráð fyrir að hættan þar hafi aukist með gríðarlegum umsvifum á Austurlandi. Það er því um að gera að leita leiða til þess að bæta þessi mál.
kl. 23:38|
||
Laugardagur 10. febrúar 2007
Þessi frétt í AlJazeera minnir óneitanlega á aðdraganda innrásarinnar í Írak. Stirðleiki virðist kominn í samskipti Íran og IAEA (Alþjóðakjarnorkustofnunin) þar sem Íranar segjast vera að nota kjarnorkuna í friðsamlegum tilgangi, þ.e. til orkuöflunar og þvíumlíks en leyfa á sama tíma fulltrúum IAEA að fullvissa sig um það. Ólíkt t.d. Ísrael hafa Íranir skrifað undir samning um þróun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi skv. þessari frétt. Hér er fjallað um sama efni á vefsíðu IAEA.
Nú er verið að draga úr samstarfsverkefnum og stuðningi án þess að það virðist hafa önnur áhrif en að auka stirðleika í samskiptum Íran við þjóðir heims.
Continue reading "Leitin að gjöreyðingarvopnum" »
kl. 19:50|
||
Sunnudagur 11. febrúar 2007
Fréttablaðið bar með sér betri tíðindi úr skoðanakönnun en við Samfylkingarmenn höfum séð undanfarið. Það gladdi mig óneitanlega en hinsvegar má benda á að margir eru óákveðnir og fylgi virðist sveiflast töluvert og svo verður áreiðanlega áfram í þessari kosningabaráttu.
Við Gísli minn fórum að Eyjafjarðaránni í dag með barnabörnin þær Hrafnhildi Láru, Ísabellu Sól og Sigurbjörgu Brynju. Veðrið var dásamlegt og frostblóm yfir öllu. Ég hef ekki áður séð svo fallega ískristalla í eins miklu magni og var, frostblómakrans á spegilsléttu svellinu á ánni og Hrafnhildur Lára fór í skautana og renndi sér og dansaði á ánni. Ég tók mikið af myndum enda myndefnið nánast endalaust. Mismunandi form á frosnu vatni er ótrúlegt listaverk.
kl. 16:26|
||
Mánudagur 12. febrúar 2007
Mér finnst orðið ógnvekjandi hversu langur vinnutíminn er hjá fólki. Æ fleiri ráða sig á svokölluð jafnaðarlaun sem eru ágæt þar til farið er að skoða vinnutímann bak við þau. Þá ná þau varla lágmarkslaunum. Starfsmenn á jafnaðarlaunum upplifa sig sem n.k. eign vinnuveitandans, þeim beri að vinna hvenær sem er, á kvöldin og um helgar.
Mér þótti allavega ógnvekjandi þegar einn vinur minn sagði að sín mesta gleði í lífinu væri þegar hann færi að sofa því þá hefði hann frið í smátíma. Frið fyrir gemsa, tölvupósti og öðru áreiti úr vinnunni.
Er þetta Ísland í dag?
kl. 23:05|
||
Þriðjudagur 13. febrúar 2007
Samfylkingin hefur nú lagt fram tillögur undir nafninu "Nýja atvinnulífið - tillögur til eflingar nýsköpunar." Þar er verið að leggja áherslu á hátæknifyrirtæki og eflingu sprotafyrirtækja. Í þessum tillögum má finna mýmörg tækifæri til sköpunar nýrra starfa ásamt því að halda störfum á þessu sviði í landinu. Ég er að vísu ekki hrifin af hugtakinu "hátækni" því ný tækni er alltaf sú sem við þurfum að þróa okkur í og ekki í sjálfu sér hærri en önnur tækni. Hinsvegar er ljóst að með nútímatækni skapast tækifæri til þess að þróa ný störf og verkefni sem ekki þekktust áður fyrr.
Við Íslendingar eigum vel menntað fólk á þessu sviði sem vill gjarnan búa um allt land og með góðum nettengingum losnar um átthagafjötra í Reykjavík og menn búa við frelsi til að setjast þar að sem tengingar eru góðar. Við hér á Akureyri þekkjum vel til þess að margir hér vinna þessi störf bæði hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem og erlendis. Enda er það svo að t.d. forritarar erlendis t.d. á Indlandi og víðar vinna fyrir íslensk fyrirtæki að þróun á ýmsum hugbúnaði í hátækniiðnaði og við hér á landi getum unnið fyrir hverja sem er hvar sem er.
Continue reading "Nýsköpun í atvinnulífinu" »
kl. 21:45|
||
Miðvikudagur 14. febrúar 2007
Við höfum horft upp á það allt of lengi að lífeyrir eldra fólks dugar ekki til framfærslu þeirra sem þurfa að reiða sig á hann. Auðvitað er til eldra fólk sem hefur úr nægu að bíta og brenna en flestir þurfa að reiða sig á lífeyrinn.
Við sem eigum dálítið eftir af starfsaldrinum teljum að lífeyririnn sem við erum að safna muni duga fyrir okkur þegar við erum eldri. En þegar rýnt er í gögnin þá er það ekki endilega þannig.
Alloft hefur okkur verið sagt að í landinu sem við byggjum hafi fólk okkur eldra lagt hönd á plóginn til þess að við, sem erum á vinnualdri, getum notið þess sem það gerði. Þetta er rétt og grundvallaratriði en það er líka mikilvægt að muna að við viljum að allir Íslendingar geti lifað með reisn mannsæmandi lífi. Okkur er ekki til sóma að hluti þjóðarinnar geti ekki séð sér farboða og búi við að geta ekki séð fyrir sér.
Mannsæmandi líf á Íslandi snýr að mannsæmandi lífi fyrir alla, alltaf.
kl. 22:48|
||
Fimmtudagur 15. febrúar 2007
Nú er ég rétt komin af fundi sem haldinn er á vegum félags sem kallar sig "Vinir Akureyrarvallar" en meginmarkmið þeirra er að standa vörð um íþróttavöll Akureyrar í hjarta bæjarins. Til stendur skv. nýju aðalskipulagi að byggja upp á íþróttasvæðum Þórs og KA en nýta núverandi íþróttarvallarsvæði fyrir verslun, þjónustu, íbúðir og útivist.
Ég tel að það skipti miklu máli hvað íþróttamönnum á Akureyri finnst koma félögunum best og þeirra íþróttastarfi því bíð ég eftir að þeir tjái sig aftur og skýrar hvort þeir séu sáttir við það sem er í gangi. Þeir hafa réttilega bent á að ekki er komið á hreint hvernig nákvæmlega uppbyggingunni verður háttað.
Continue reading "Vinir Akureyrarvallar" »
kl. 23:29|
||
Föstudagur 16. febrúar 2007
Ég hef alltaf undrast af hverju tennurnar í okkur eru nánast algerlega utan heilbrigðiskerfisins. Er það vegna þess að það sé allt í lagi að hafa engar tennur? Varla, því er það óskiljanlegt og einhver gömul afturhaldssöm venja sem í rauninni er að koma í veg fyrir að við höfum heilbrigðisþjónustu fyrir allan líkamann.
Það er ekkert flókið að sinna heilbrigðisþjónustu á tönnum án þess að það taki til sérstakra fegrunaraðgerða. Slíkt er nokkuð einfalt með aðra líkamsparta þannig að slíkt eru ekki rök.
Í dag fá fjölmörg börn ekki tannlæknaþjónustu því foreldrar þeirra hafa ekki efni á því og í raun á hið sama við um marga fullorðna. Ég held að okkur væri sómi í því að auka jöfnuð manna með því að láta heilbrigðiskerfið taka þátt í að tryggja heilbrigði alls líkamans og sleppa ekki tönnunum.
kl. 23:21|
||
Laugardagur 17. febrúar 2007
Ég var að lesa Lögberg Heimskringlu blað Vesturíslendinga í morgun og þar á meðal grein eftir David Jón Fuller ritstjóra blaðsins þar sem hann fjallar í forystugrein um nýjan sjónvarpsþátt "Little Mosque on the Prairie" fordóma í tengslum við múslima í dag. Hann minnir menn þar á þegar Íslendingar voru nýkomnir til Kanada þar sem m.a. voru skilti sem auglýstu atvinnu en um leið bent á að Íslendingar þurfa ekki að sækja um því ljóst væri að þeir fengju ekki störfin.
Hann bendir á að Íslendingar hafi þurft að sæta fordómum og ættu því sjálfir ekki að leggja slíkt fyrir sig. Hann bendir á setningar sem við ættum vel að þekkja eins og "Múslimar eru strangtrúramenn" eins og það sé ekki fyrir hendi í nánast öllum trúarbrögðum. Setningar eins og "þeir eru allir svo..." er í grunninn fordómafull.
Continue reading ""Íslendingar sæki ekki um"" »
kl. 09:12|
||
Sunnudagur 18. febrúar 2007
Við frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi vorum á Narfastöðum í Reykjadal um helgina og þar var virkilega notalegt að vera, maturinn frábær og þjónustan einstök og persónuleg. Farið var yfir komandi kosningabaráttu, þeir sem ekki höfðu hist áður kynntust og eldri vinabönd styrkt. Það var mikið sungið, óteljandi skemmtisögur og endað í heitum potti langt fram undir morgun. Þar var hátindurinn Helga félagi okkar sem bar í okkur heimabakað rúgbrauð með alskyns áleggi í pottinn og voru menn orðnir svo sólgnir í þetta góða brauð að í náttkyrrðinni hljómaði nokkrum sinnum "við viljum rúgbrauð" ekkert fransbrauð þar;-)
Norðurljósin dönsuðu um himininn og Reykjadalurinn, þar sem ég var í skóla á Laugum fyrir allmörgum árum, skartaði sínu fegursta.
Það besta við pólitíkina eru traustir félagar og síðan enn betra þegar þeir eru svona dásamlega skemmtilegir eins og raun ber vitni. Síðan er úthaldið ekki verra því síðustu pólitísku umræðurnar hjöðnuðu rúmlega sex í morgun;-)
kl. 15:58|
||
Mánudagur 19. febrúar 2007
Fáa hefði órað fyrir því að vatnslögn Kópavogs yrði annað eins mál og það virðist vera. Síðasta uppgötvun á trjám á verktakasvæði í Hafnarfirði eiginlega kórónar þetta allt saman. Ég fellst á að það er harla undarlegt að aka trjám til Hafnarfjarðar ef það á að planta þeim aftur í Heiðmörk og einnig er það ekki síður undarlegt að hluta trjánna vantar. Hvar skyldu þau koma næst í ljós?
Eftir stendur sú staðreynd að menn þurfa að huga vel að því ferli sem verður þegar einhverra hluta vegna þarf að rýma svæði sem hefur verið tekið undir skógrækt. Inn í þetta fléttast auðvitað margir hlutir en þar sem ég hef verið við að planta trjám í Heiðmörk þá veit ég að þetta svæði skiptir marga gríðarlegu máli og er ægifagurt. Ég fór síðast í haust um Heiðmörkina að mynda og það kom mér á óvart hversu há trén voru orðin og hversu gríðarleg vinnahefur farið í að prýða svæðið. Velti fyrir mér hvort það yrði látið ósnortið eða hvort þensla höfuðborgarsvæðisins muni að lokum þrengja að þessu fagra útivistarsvæði.
Ég held að það sé mikilvægt fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu að gera það alvarlega upp við sig hvernig þeir vilja fara með náttúruna í nánasta umhverfi borgarinnar. Byggðin er farin að ná nánast upp að Krýsuvík, upp að Elliðavatni og teygir sig upp dali og út að sjó. Gjárnar í Hafnarfjarðarhrauninu eru mikil náttúruundur, Hellisheiðin og þá sérstaklega Hengilssvæðið, Mosfellsdalurinn og margt fleira. Er til áætlun um hvað menn ætla að nýta og nota í nágrenni höfuðborgarinnar?
kl. 23:19|
||
Þriðjudagur 20. febrúar 2007
Þá er ég að leggja af stað til Seyðisfjarðar, sem ég hlakka mikið til, verð þar á fundi í kvöld. Með mér hef ég auðvitað myndavélina góðu og vonast til að geta náð einhverju góðu myndefni á leiðinni. Hlakka til að hitta gott fólk og hafa gaman;-)
kl. 11:19|
||
Miðvikudagur 21. febrúar 2007
Ég er nú í Seyðisfirði og veðrið svosem bara íslenskt vetrarveður hér en á Fjarðarheiðinni er blindbylur og því verður fróðlegt að sjá hvernig okkur gengur yfir heiðina. Hér höfum við farið í leikskólann, grunnskólann, á bæjarskrifstofuna og á sjúkrahúsið. Auðvitað heimsóttum við Samkaup og fórum í SR.
Hér er aðalbaráttumál heimamanna að fá samgöngur þ.e. göng sem gera þeim kleift að samnýta þjónustu, komast milli staða en ekki síst að auka öryggi þegar farið er milli staða. Í morgun voru konur á leið í sónar í vandræðum á heiðinni, nemendur komast ekki skólann í Menntaskólanum á Egilsstöðum og við hittum fólk sem ekki komst í vinnuna.
Síðast en ekki síst situr einn þingmaður í óveðrinu og hefur horft á sömu vegastikuna í allan morgun.
En hér í Seyðisfirði er gott að vera, móttökur allar frábærar, vel sóttur fundur í gærkvöldi og mikill hugur í okkar fólki. Það er gott að vera Samfylkingarmaður í Seyðisfirði.
kl. 12:13|
||
Fimmtudagur 22. febrúar 2007
Bændur eru vammlausir menn og þeir tóku af skarið með að framleiðendur klámefnis ættu ekki að gista á Radisson Hótel Sögu. Hinsvegar er spurning hvað þeir ætla að gera með efni á lokuðum rásum sem sýnt er á hótelinu og það hefur tekjur af. Er þetta kannski svo svört kómedía að framleiðendum myndanna sem hótelið kaupir fá ekki að gista á því sama hóteli?
Þegar sagt er A þarf að segja B, og þá er spurningin um önnur hótel? Treysta þau sér til að segja nei við því að selja sýningu á klámmyndum?
kl. 19:41|
||
Laugardagur 24. febrúar 2007
Ég fór á fund í gær sem bar yfirskriftina "Evran og landsbyggðin" sem haldin var af Landsbankanum og KEA. Enginn fyrirlesaranna sem voru Árni Matthísen, Edda Rós Karlsdóttir og var til í að takast á við titil ráðstefnunnar nema Edda Rós Karlsdóttir sem þó skautaði yfir það frekar hratt. Miðað var við meðalhagvöxt landsins en ekki horft til þess að landsbyggðin er með langt í frá sama hagvöxt og Reykjavíkursvæðið eins og sjá má í skýrslu Byggðastofnunar "Hagvöxtur landshluta" frá árinu 2004. Þar kemur í ljós að hagvöxtur höfuðborgarsvæðisins er á tímabilinu 39% en -6% á Norðurlandi vestra sem og Vestfjörðum. Hér á Norðurlandi eystra er hagvöxturinn 11% á þessu tímabili. Það er því ljóst að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar til að slá á þenslu á höfuðborgarsvæðinu bitnar á landsbyggðinni þar sem vandinn eykst enn frekar.
Continue reading "Evran og landsbyggðin" »
kl. 00:48|
||
Sunnudagur 25. febrúar 2007
Mér fannst fínt að heyra Illuga Jökulsson tala um hvernig væri að búa á heimili þar sem foreldri er alkohólisti því það þekki ég einmitt. Fann mig mest í umræðunni um að hlutirnir eru ekki skiljanlegir en maður veit að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Einnig finnst manni stundum lífið hljóti að vera bara fínt, það sé stundum alveg ágætt en svo veit maður á sama tíma að það er eitthvað ekki í lagi. Lánið mitt er að pabbi minn hætti að drekka vorið sem ég fermdist þrátt fyrir að það tæki síðan heimilið tíma að jafna sig en ég fór í heimavistarskóla veturinn á eftir og var í sveit á sumrin svo í rauninni bjó ég ekki heima eftir að ég var 14 ára en held samt góðum tengslum við fjölskylduna mína.
Ég hef því oft velt fyrir mér réttindum barna sem búa við þennan sjúkdóm enn þann dag í dag, við Illugi virðumst hafa farið ágætlega út úr þessu af einhverjum ástæðum en þetta situr samt alltaf einhversstaðar í sálinni. Andstreymi færir manni svosem alltaf eitthvað en á sama tíma þá held ég að möguleikar glatist og að börn alkohólista sjái ekki sín tækifæri.
Continue reading "Börn alkohólista" »
kl. 22:48|
||
Mánudagur 26. febrúar 2007
Þrátt fyrir að mikið sé talað um umhverfismál þá hefur mér sýnst minna um aðgerðir sem eru raunhæfar. Samfylkingin á Akureyri barðist fyrir því að það yrði ókeypis í strætó og þar jókst um leið notkun vagnanna að miklum mun svo mikið að fjölga þarf vögnum í bænum. Þarna er flokkurinn að láta verkin tala og leggja til svo um munar til málanna. Á sama tíma mæta allir á bíl á landsfund hjá flokknum sem hæst lætur. Það er ekki nóg að tala það þarf að framkvæma. Nú er svosem hægt að skjóta sér á bak við valdaleysi en völdin eru þó fyrir hendi en þau eru ekki notuð.
Það tekur okkur hinsvegar tíma að temja okkur að nota almenningssamgöngur, það er lífsstíll sem oft krefst meiri tíma en menn virðast hafa og tengist því þéttum böndum þeirri nauðsyn að minnka vinnutíma fólks sem í mörgum tilfellum nánast tekur alla orku frá fólki og þá sérstaklega ungu fólki með börn sem þarfnast foreldra sinna. Því þurfa allir að leggjast á eitt með að stuðla að umhverfisvænu umhverfi sem fólk hefur tíma til að sinna.
kl. 23:06|
||
Þriðjudagur 27. febrúar 2007
Var að koma af skemmtilegum fundi hjá Pollinum þar sem Steingrímur J. Sigfússon mætti til að ræða við fólkið. Pollurinn er sameiginlegur vettvangur áhugafólks um stjórnmál á Akureyri úr öllum stjórnmálaflokkum. Þar eru pólitískir stælar lagðir til hliðar og fólk ræðir stjórnmál frá sjónarhorni Akureyrar.
Það var skemmtilegt fyrir hópinn að fá formann stjórnmálaflokks til að ræða stjórnmálin ekki út frá tilkynningapólitík heldur í samræður um tækifæri, möguleika og hugmyndir. Menn voru nokkuð tryggir grunnhugmyndinni og því var fundurinn virkilega skemmtilegur.
Frábær félagsskapur sem gaman er að mæta á fundi hjá;-)
kl. 23:38|
||
Miðvikudagur 28. febrúar 2007
Mér hefur stundum fundist að menn tali um fólk sem hefur lifað lengur en annað fólk eins og það sé á einhvern hátt öðruvísi fólk. Menn tala um "Eldri borgara" eins og "Erlendan borgara" eða eins og eitthvað annað en hinir. Staðreyndin er hinsvegar sú að þegar maður er eitt sinn fæddur er bara eitt í stöðunni annað hvort lifir maður lengi og verður gamall og þar af leiðandi eldri borgari eða maður er hreinlega dauður. Því er spurningin hvort þeir sem yngri eru og láta sig litlu varða um eldra fólk hvort það hyggist sjálft einfaldlega ekki verða gamalt? Ekki er fólk svo skyni skroppið að telja að talningin í árum sé eitthvað óháð þeim sjálfum?
Ég held að við eigum að líta á stöðu eldra fólks sömu augum og það værum við sjálf því við höfum bara tvennt um að velja, vera gömul - eða dauð. Sé maður á lífi þá er um að gera að hafa gaman af því og sjá til þess að lífið geti verið býsna gott. Því ber okkur öllum að setja okkur í þessi spor með þeirri vissu að þarna verðum við sjálf - tja eða þá bara ekki til.
kl. 22:21|
||